Hugmynd Miðflokksins um afnám vsk af matvælum: Portúgal fór þessa leið

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins.

Bergþór Ólason, formaður þingflokks Miðflokksins, undrast viðbrögð Þórdísar Kolbrúar Reykfjörð Gylfadóttur fjármálaráðherra við hugmyndum formanns Miðflokksins um afnám virðisaukaskatts af matvælum, allavega tímabundið í tvö ár, í því skyni að bæta lífskjör almennings og vinna bug á verðbólgunni.

Eins og Viljinn skýrði frá um síðustu helgi, lagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fv. forsætisráðherra, þetta til á landsfundi Miðflokksins.  Sagði hann að þetta mætti gera annað hvort varanlega eða tímabundið í tvö ár, og koma þannig beint til móts við tekjuminni hópa sérstaklega, bæta lífskjör alls almennings og ná niður verðbólgunni. Um væri að ræða beina efnahagsaðgerð sem gagnist öllum Íslendingum strax og mjög vel.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd fyrir Viljann: Rúnar Gunnarsson.

Þórdís Kolbrún sagði í viðtali við Ríkisútvarpið, að af og frá væri að slíkt gagnist sem tæki gegn verðbólgu. „Fyrir utan verðmiðann á slíku og áhrif á hagkerfið, þá er ég nú ekki sammála því að það væri snjallt,“ sagði hún.

Um þetta segir Bergþór í grein í Morgunblaðinu í dag:

„Það er auðvitað ágætt að afstaða ráðherrans liggi fyrir. Verra er að hún setji sig með henni í flokk með álitsgjöfum sem hafa þann einstaka hæfileika að hafa aldrei rétt fyrir sér. Til að setja verðmiðann í samhengi, þá er hann lægri en bara árlegur kostnaðarauki af málefnum hælisleitenda síðan Sjálfstæðisflokkurinn tók við fjármálaráðuneytinu undir forystu forvera Þórdísar Kolbrúnar í embætti.

Og varðandi það að aðgerð sem þessi sé hluti af lausninni í baráttunni við verðbólguna, þá má nefna sem dæmi að í Portúgal tóku stjórnvöld ákvörðun um einmitt þetta, að afnema virðisaukaskatt tímabundið af tilteknum matvælum. Skemmst er frá því að segja að þeim í Portúgal gengur mun betur í slagnum við verðbólguna en okkur hér heima.

En á meðan ríkisútgjöldin eru jafn stjórnlaus og raun ber vitni er ekki ljóst hvað dugar til að ná niður verðbólguvæntingum og verðbólgunni sjálfri í framhaldinu,“ segir Bergþór ennfremur.