Húsnæðisverð hækkar enn

Byggingaframkvæmdir í höfuðborginni. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,7% milli apríl og maí. Vísitalan hefur nú hækkað fjóra mánuði í röð, en þar áður, í nóvember, desember og janúar, varð lengsta samfellda lækkun íbúðaverðs síðan undir lok árs 2009, að því er greinir frá í Hagsjá Landsbankans.

„Lækkunin hefur nú gengið til baka og gott betur. Óhætt er að segja að íbúðamarkaður hafi ekki kólnað eins hratt og ætla hefði mátt. Hærra vaxtastig og þrengri lánþegaskilyrði hafa dregið mjög úr aðgengi að lánsfé og þannig slegið á eftirspurn. Á móti vegur síaukin þörf á íbúðum. Landsmönnum hefur aldrei fjölgað jafnmikið og á síðasta ári og á fyrsta fjórðungi þessa árs. Hækkandi leiguverð sýnir líka að þótt eftirspurn eftir íbúðum til kaupa hafi minnkað með breyttu lánaumhverfi er enn eftirspurn eftir húsnæði,“ segir þar ennfremur.

Alls voru 392 kaupsamningar undirritaðir á höfuðborgarsvæðinu í maí, 40% færri en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt bráðabirgðatölum HMS. Þeim fjölgaði þó á milli mánaða, voru 325 í apríl.