Hvað er eiginlega í gangi hjá Sýn?

„Það var reitt hátt til höggs í sameiningu Fjarskipta og 365-miðla. Rekstraráætlun hins nýja félags Sýnar var metnaðarfull og gert ráð fyrir mikilli samlegð.“

Þannig hljómaði inngangur að síðustu greiningu sem Capacent sendi frá sér um Sýn (áður Vodafone) en margir velta því nú fyrir sér hvað sé eiginlega í gangi hjá þessu öfluga fjarskipta- og fjölmiðlafélagi, því gengi bréfa í félaginu hefur verið í frjálsu falli og lykilstjórnendur yfirgefa skútuna í hrönnum.

„Greinendur eru settir í erfiða aðstöðu líkt og við sameiningu Fjarskipta og 365-miðla, þótt þeir sjái að rekstraráætlun er bjartsýn eiga þeir erfitt með að gera annað en að fylgja henni. Eina sem er í stöðunni er að setja þeim mun hærra álag á fjármangskostnað. Það eru ekki allar sameiningar ferðir til fjár,“ segir ennfremur í greiningu Capacent um félagið, en Capacent var í lok fyrrasumars farið að efast um að rekstraráætlun Sýnar myndi ná að halda, eins og það var orðað.

Sú varð og raunin og reksturinn hefur verið erfiður að undanförnu. Stöð 2 sport er búið að missa ensku knattspyrnuna, sem var gríðarlegur skellur og svo virðist sem kostnaður sé of mikill og tekjuvöxtur ekki í samræmi við áætlanir.

Svo fór að forstjórinn Stefán Sigurðsson tilkynnti að hann hygðist láta af störfum og axla þannig ábyrgð á afkomunni sem væri undir væntingum. Sagði hann ekkert launungarmál að sameiningin við fjölmiðlahluta 365-miðla hefði verið kostnaðarsamari og tekið meira á, en hann hefði gert ráð fyrir og best færi á því að nýr stjórnandi tæki félagið áfram.

Heiðar Guðjónsson fjárfestir.

Í morgun barst svo tilkynning til Kauphallarinnar að Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Sýnar, hafi ákveðið að láta af störfum sem fjármálastjóri fyrirtækisins frá og með 1. júní 2019. Sem er einmitt sami dagur og Stefán ætlar að láta formlega af störfum.

Í frétt á Vísi í dag (sem er í eigu Sýnar) segir:

„Hrönn bætist þar í hóp lykilstjórnenda sem yfirgefið hafa Sýn á síðustu mánuðum. Má þar t.a.m. nefna þau Björn Víglundsson, framkvæmdarstjóra Miðla, og Ragnheiði Hauksdóttur sem leitt hafði einstaklingssvið Sýnar. Þau létu af störfum sínum fyrir fyrirtækið um miðjan janúar síðastliðinn.

Þá ákvað forstjóri Sýnar, Stefán Sigurðsson, jafnframt að róa á önnur mið. Greint var frá brotthvarfi hans í lok febrúar. Stjórn félagsins fól Heiðari Guðjónssyni, stjórnarformanni Sýnar, að annast í auknum mæli skipulag félagsins og gæta þess að rekstur þess sé í réttu og góðu horfi fram að ráðningu nýs forstjóra.“