Íbúðaverð fer áfram lækkandi og kaupsamningum fækkar

Byggingaframkvæmdir í höfuðborginni. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,8% milli mánaða í júlí. Árshækkun vísitölunnar minnkaði úr 2,7% í 0,8% og hefur ekki mælst jafn lítil síðan í janúar 2011. Undirritaðir kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu voru 17% færri í júní en í sama mánuði í fyrra.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Þar segir að vaxtahækkanir hafi án efa komið skýrast fram á íbúðamarkaði. „Markaðurinn fer enn kólnandi og verðþróunin hefur gjörbreyst, þótt enn sé langt frá því að viðskiptin hafi stöðvast. Enn eru í gildi reglur um þrengri lánþegaskilyrði sem styðja við áhrif vaxtahækkana og torvelda ekki síst nýjum kaupendum að koma inn á markaðinn.

Allt frá því að fasteignamarkaðurinn fór að róast um mitt síðasta ár hefur mánaðarbreyting vísitölunnar verið nokkuð breytileg og óútreiknanleg. Því er ekki útséð um að íbúðaverð geti hækkað aftur lítillega á næstu mánuðum, þótt það lækki suma mánuði,“ segir þar ennfremur.