Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, segir fréttaflutning um sölu Kópavogsbæjar á bæjarlandi í tengslum við uppbyggingu á 150 íbúðum vestast á Kársnesi, við Kópavogshöfn (reitur 13) ekki hafa gefið rétta mynd af málinu.
„Aðeins hluti þess lands sem er undir hinni fyrirhuguðu byggð var í eigu bæjarins, meirihluti þess var í eigu Langasjávar sem keypti lóðina nýlega dýru verði af fyrri eiganda lóðarinnar. 51 íbúð er á hinu selda bæjarlandi af 150 íbúðum sem verða byggðar á reitnum.
Ég bjó til einfalda mynd til útskýringar sem fylgir hér með. Verðið sem Kópavogsbær fékk fyrir lóðina tekur mið af þessum viðskiptum með reitinn og því óhætt að fullyrða að markaðsverð hafi fengist fyrir hið selda bæjarland.
Rétt er að athuga að uppbyggingarsamningurinn við Langasjó hljóðar upp á 1,5 milljarð króna. Allt tal um að hagsmunir Kópavogsbúa hafi verið fótum troðnir eru innantómar upphrópanir,“ segir hann.
„Í mínum huga eiga sveitarfélög að hámarka það verð sem þau fá við lóðasölu. Til að gæta jafnræðis milli aðila tel ég einnig að auglýsa eigi þær lóðir sem eru til sölu. Á þessum tiltekna reit er sameiginlegur bílakjallari undir svæðinu og tæknileg atriði sem gera það að verkum að ákveðið var að bjóða bæjarlandið til sölu í tengslum við gerð uppbyggingarsamningsins án auglýsingar. Það fékkst gott verð fyrir bæjarlandið og gott byggingarréttargjald fékkst fyrir önnur hús á reitnum. Þessir fjármunir fara í innviði á svæðinu, skóla, betri samgöngur og fegrun umhverfis,“ bætir bæjarfulltrúinn við.