Kristján Loftsson: Sviðsett leikrit í boði Svandísar og VG

Óhætt er að segja að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og MAST fái það óþvegið hjá Kristjáni Loftssyni, forstjóra Hvals hf, í aðsendri grein hans í Morgunblaðinu í dag. Segir hann fyrirtækið og starfsfólk þess fórnarlömb fjölmiðlaherferðar forstjóra MAST og óvandaðrar stjórnsýslu ráðherrans, sem ekkert sé annað en pólitískt leikrit.

Kristján bendir á í grein sinni, að forstjóri MAST hafi orðið tvísaga um lögbundið samráð við Fiskistofu, eins og vera vilji þegar sannleikurinn er ekki með fólki í liði. Bendir hann því næst á gagnrýni undanfarin ár á hve MAST sé svifasein í öllum ákvörðunum, en nú bregði svo við að Hvalur fái allt aðra og skjótari meðferð en önnur fyrirtæki.

Þegar forstjóri MAST hefði í Kastljósi verið spurður hvort þetta væri skipun að ofan, hefði hann engu svarað og farið undan í flæmingi.

„Annars þarf Hvalur ekki að hafa áhyggjur af réttaröryggi sínu, því eins og MAST bendir á þegar refsivendinum er beitt án afláts á Hval, þá má alltaf kæra ákvarðanirnar til Svandísar Svavarsdóttur til endurskoðunar.

Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að komist umboðsmaður Alþingis að því að ráðherra hafi brotið lög gegn Hval, þá verði næsti þáttur í hinu sviðsetta leikriti sá að ráðherrann víki sæti í málefnum fyrirtækisins og tryggi þannig „málefnalega“ stjórnsýslu, á sama tíma og annar ráðherra úr flokki hennar mun stjórna næsta leikþætti,“ segir Kristján Loftsson ennfremur.