Landsmönnum fjölgar um 2.760 á þremur mánuðum og eru nú 396.960 talsins

Áfram heldur landsmönnum að fjölga mjög hratt, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Fjölgunin nú er um 900 manns á mánuði, eða 2.760 á þriðja ársfjórðungi, og í lok september sl. bjuggu 396.960 manns á Íslandi, 205.310 karlar, 191.500 konur og kynsegin/annað voru 160.

Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 252.390 manns en 144.570 á landsbyggðinni.

Á þriðja ársfjórðungi 2023 fæddust 1.160 börn en 640 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 2.230 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 200 umfram aðflutta en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 2.430 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.