Launakostnaður allt of hár í ferðaþjónustu: Guðmundur með tögl og hagldir

Hörður Ægisson viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins.

„Árið í íslensku viðskiptalífi hefur um margt verið mjög tíðindamikið. Rekstrarerfiðleikar flugfélaganna, ekki hvað síst WOW air, ber þar hvað hæst enda hafa fjármálamarkaðir sveiflast síðustu mánuði í samræmi við fréttir af stöðu flugfélaganna,“ segir Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins í samtali við Viljann, þegar hann er beðinn að gera upp árið sem senn rennur sitt skeið og árið 2019 gengur í garð.

„Gangi kaup Indigo Partners á hlut í WOW air eftir er hættan á gjaldþroti félagsins ekki lengur fyrir hendi, sem hefði haft skelfilegar afleiðingar til skamms tíma fyrir efnahagslífið. Það verður áhugavert að sjá hvernig Icelandair mun takast á við þá nýju stöðu að fást við vel fjármagnaðan keppinaut, sem skilgreinir sig sem ofurlággjaldaflugfélag, og er stýrt af fjárfestingafélagi sem hefur langa reynslu af því að reka flugfélög með arðbærum hætti,“ segir Hörður.

Sameiningar á dagvörumarkaði og aukin fjárfesting útlendinga

„Sameiningar á eldsneytis- og dagvörumarkaði – annars vegar kaup N1 á Festi og hins vegar kaup Haga á Olís – gengu loksins í gegn á árinu eftir að hafa verið til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu í meira en eitt ár. Þau risaviðskipti sæta miklum tíðindum og munu örugglega hafa meiri áhrif á íslenskt viðskiptalíf til lengri tíma en margan grunar. 

Við höfum einnig séð alþjóðleg fyrirtæki og fjárfestingasjóði horfa í meira mæli til fjárfestinga í íslensku atvinnulífi en áður hefur þekkst. Salan á CCP til suður-kóreska leikjaframleiðandans Pearl Abyss fyrir 425 milljónir dala, stærsta sala á íslensku tæknifyrirtæki frá upphafi, stendur þar vitaskuld upp úr á árinu en einnig mætti nefna kaup danskra fjárfestingar- og lífeyrissjóða á hlut í Advania, sölu á 55 prósenta hlut Tempo (dótturfélag Origo) til alþjóðlegs fjárfestingarsjóðs, kaup Tripadvisor á hugbúnaðarfyrirtækinu Bókun og sala 66 Norður á minnihluta í félaginu til bandarísks fjárfestingarsjóðs.

Svona mætti áfram telja. Þetta er afar jákvæð þróun enda þurfum við á fleiri erlendum fjárfestum að halda, sem koma ekki aðeins með fjármagn að borðinu heldur einnig nýja þekkingu og reynslu sem er kannski ekki til staðar fyrir, til að standa undir nauðsynlegri fjárfestingu á komandi árum,“ segir Hörður ennfremur.

Guðmundur í Brimi og Þorsteinn Már í Samherja menn ársins

„Einkum tveir einstaklingar í viðskiptalífinu standa upp úr á árinu sem er að líða – og þeir koma báðir úr sjávarútvegi,“ segir Hörður. „Annars vegar Guðmundur Kristjánsson, oftast kenndur við Brim, sem keypti ráðandi hlut í HB Granda fyrir nærri 22 milljarða króna. Hann lét ekki þar við sitja heldur sannfærði hluthafa HB Granda í kjölfarið um að kaupa af sér Ögurvík og seldi þriðjungshlut sinn í Vinnslustöðunni – og lauk þar með um leið áralöngum deilum innan hlutahafahópsins. Þannig tókst Guðmundi að fjármagna kaupin á HB Granda að fullu, greiða upp lánið við Landsbankann, og stendur eftir með tögl og hagldir í einu öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Allt á aðeins nokkrum mánuðum. 

Þannig tókst Guðmundi að fjármagna kaupin á HB Granda að fullu, greiða upp lánið við Landsbankann, og stendur eftir með tögl og hagldir í einu öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Allt á aðeins nokkrum mánuðum. 

Þorsteinn Már Baldvinsson í Samherja átti einnig viðburðarríkt ár. Samherji er orðinn ráðandi hluthafi í Eimskip eftir kaup á fjórðungshlut í félaginu, reyndar á verði sem mörgum þótti kannski helst til of hátt, og þá er Þorsteinn Már kominn með rúmlega 9 prósenta hlut í smásölurisanum Högum – sem gerir hann að stærsta einkafjárfestingum í hluthafahópnum. Og síðast en ekki síst lauk loksins hatrömmum deilum milli Samherja og Seðlabankans á árinu með fullnaðarsigri Þorsteins Má. Hann getur því verið sáttur með árið.“

Svigrúm til launahækkana er afar lítið

Aðspurður hvort von sé á verkföllum og alvarlegum vinnudeilum eftir áramót, segir Hörður:

„Maður leyfir sér að vera bjartsýnn um að til þess þurfi ekki að koma enda væru það herfileg öfugmæli með hliðsjón af því að meginþorri launafólks hefur upplifað fordæmalausa kaupmáttaraukningu á allra síðustu árum. Verkefnið sem aðilar vinnumarkaðarins standa frammi fyrir, bæði fulltrúar atvinnurekenda og verkalýðsfélaganna, er að glutra ekki niður þeim mikla árangri sem áunnist hefur. Niðurstaða kjarasamninga þarf að taka mið af þeirri staðreynd að svigrúm flestra fyrirtækja til að taka á sig almennar launahækkanir er afar lítið.

Einbllína þarf frekar á leiðir til bæta kjör þeirra verst settu, ekki hvað síst með aðgerðum til að leysa framboðsvandann á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu.

Þær fréttir sem berast af kjaraviðræðunum gefa hins ekki tilefni til bjartsýni. Því miður er stærstu verkafélögunum í dag stýrt af fólki sem gefur lítið fyrir efnahagslegt samhengi hlutanna og hefur kosið að leggja af stað í vegferð byggða á mislestri á stöðunni og eins misráðinni væntingastjórnun. Það eykur líkurnar á að við munum sjá fram á skærur og verkföll á vinnumarkaði.“

Ofurvöxtur ferðaþjónustunnar

Um árið 2019, sem senn gengur í garð, segir viðskiptaritstjórinn:

„Flest bendir til að átök og deilur á vinnumarkaði muni óhjákvæmilega setja mark sitt á fyrstu mánuði ársins. Þá munu fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu áfram þurfa að leita allra leiða til aðlaga rekstur sinn að nýju jafnvægi eftir þann ofurvöxt sem einkennt hefur ferðaþjónustuna á síðustu árum.

Launakostnaður í greininni er alltof hár, rétt eins og í flestum öðrum atvinnugreinum, og fyrirtækin hafa engan annan valkost en að ráðast í hagræðingu, einkum með samþjöppun og sameiningum fyrirtækja í miklu stærri einingar. Sú þróun er aðeins rétt hafin.“