Lindex lokar á Laugavegi og stækkar í Kringlunni

Hjónin Albert Þór Magnússon og Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðilar Lindex á Íslandi.

Forráðamenn Lindex á Íslandi hafa ákveðið að sameina rekstur þriggja verslana á einn stað í Kringlunni þar sem nú er rekin Lindex dömu- og undirfataverslun.  Samhliða hefur verið ákveðið að loka verslun Lindex á Laugavegi og er þetta enn ein hefðbundna verslunin sem lokar á þessari frægu verslunargötu undanfarið.

Verslunin, sem staðsett er í aðalgangi Kringlunnar, mun verða eftir breytingar tæplega 700m2 og sú stærsta hér á landi þar sem boðið verður heildarvörulínu Lindex og verður við lok framkvæmda flaggskipsverslun fyrirtækisins hér á landi.   

Í fyrsta áfanga verður verslun og þjónusta sem þekkt er undir nafninu Click and Collect og starfrækt hefur verið á Laugavegi 7og gerir fólki kleift að nálgast vörur, sem verslaðar eru á netinu, samdægurs flutt í Kringluna.

Annar áfangi opnar um mitt næsta ár, 2020 þegar framkvæmdum lýkur við stækkun Kringlunnar aftan við rýmið sem nú hýsir dömu- og undirfataverslun Lindex.  Við þá breytingu mun Kids verslun Lindex í Kringlunni flytja á einn og sama stað.

Mikil viðurkenning fyrir Kringluna

Samhliða þessum breytingum verður versluninni á Laugavegi lokað og gildir það frá deginum í dag að telja.

 „Við erum gríðarlega ánægð með að geta tekið þetta skref þar sem við höfum leitað leiða til að koma öllum okkar frábæru vörum á einn stað í Kringlunni.  Jafnframt því erum við spennt að geta boðið Click&Collect þjónustuna núna með þeim þægindum sem fylgir því góða aðgengi sem er að Kringlunni.   Staðsetningin gerir okkur kleift að bjóða upp á tískuupplifun á heimsmælikvarða.“ segir Lóa D. Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi

„Við erum mjög glöð með samninginn sem nú hefur verið undirritaður og teljum að það felist í því mikil viðurkenning fyrir Kringluna að Lindex velji það fyrir sína flaggskipsverslun.  Kringlan er afar vel staðsett miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og hefur skipað veglegan sess í verslun Íslendinga í gegnum árin,” segir Sigurjón Örn Þórsson, frkv.stj. Kringlunnar.