Ljóst að ráðherra virti að vettugi ráðleggingar sérfræðinga ráðuneytisins

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.

Niðurstaða umboðsmanns um að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafi farið í bága við lög og ekki gætt að meðalhófi er hún stöðvaði tímabundið veiðar á langreyðum við Ísland 20. júní sl. er í fullu samræmi við málflutning Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og lögfræðilegt álit lögmannsstofunnar LEX sem SFS aflaði í kjölfar ákvörðunar ráðherra og birti hinn 27. júní sl.

Þetta segir í yfirlýsingu frá framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem Viljanum hefur borist. Þar segir að niðurstaða LEX lögmannsstofu hafi verið skýr og rökstudd; ákvörðun ráðherra að banna tímabundið veiðar á langreyðum við Ísland árið 2023 hafi farið í bága við lög og ekki reist á nægilega traustum lagagrundvelli. Þannig hafi verið farið gegn mikilsverðum rétti Hvals hf. samkvæmt 72. og 75. gr. stjórnarskrár er varða vernd eignarréttar og atvinnufrelsi, auk þess sem meðalhófs var ekki gætt. Sjá nánar hér.

Þá segir í yfirlýsingu Heiðrúnar Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS:

„Rétt er jafnframt að minna á að við rýni þeirra gagna sem lágu að baki ákvörðun matvælaráðherra er ljóst að ráðherra virti að vettugi ráðleggingar sérfræðinga ráðuneytis síns sem töldu m.a. nauðsynlegt að (i) rannsaka með sjálfstæðum hætti allar mögulegar tillögur til breytinga á reglugerð og áhrif þeirra, (ii) huga að meðalhófi og (iii) gæta að andmælarétti Hvals hf. Þegar hin ólögmæta ákvörðun ráðherra lá fyrir töldu sérfræðingar ráðuneytisins einnig rétt að vekja máls á mögulegri skaðabótaábyrgð sem af ákvörðun þessari gæti kviknað. Sjá nánar hér.

Að fyrrgreindu virtu verður ekki annað ráðið en að ásetningur ráðherra hafi staðið til þess að virða mikilsverð réttindi leyfishafa og skyldur framkvæmdavaldshafa að vettugi. Það er til mikillar umhugsunar þegar ráðherra gengur svo um grundvallarréttindi fólks og fyrirtækja.  

Að fenginni niðurstöðu umboðsmanns Alþingis verður að telja einsýnt að ábyrgð ráðherra verði tekin til skoðunar á viðeigandi vettvangi og að ríkið liðki fyrir því að tjón allra þeirra sem ráðherra beitti órétti verði bætt.“