Mælikvarði á velgengni: Elskar fólkið, sem þér þykir vænt um, þig líka?

Tveir af ríkustu mönnum veraldar; vinirnir Bill Gates og Warren Buffet.

Warren Buffett, eigandi fjárfestingafélagsins Berkshire Hathaway, og Bill Gates, stofnandi og aðaleigandi Microsoft, eru tveir af ríkustu mönnum veraldar. Talið er að samanlögð auðæfi þeirra nemi yfir 170 milljörðum bandaríkjadala, að því er fram kemur í Business Insider.

En þeir aldavinirnir eru sammála um eitt, að peningar hafi ekkert að gera með það hvernig velgengni fólks er vegin og metin.

Gates segir í pistli sem hann birti á vefsíðu sinni um áramótin, að Buffet hafi kennt sér að skilgreina velgengni út frá persónulegum samböndum.

„Mælikvarði hans á velgengni er: „Elskar fólkið, sem þér þykir vænt um, þig líka?“, segir Gates í pistli sínum. „Það er líklega eins góður mælikvarði og hægt er að finna,“ segir hann.

Gates viðurkennir að gildismat hans hafi breyst með auknum þroska og aldri. Hann meti vitaskuld enn árangur erfiðis síns, en aðrar og stærri spurningar leiti á hugann: Varði ég nægum tíma með fjölskyldunni? Er ég að auka nægilega við þekkingu mína? Hef ég stofnað til nýrra vináttusambanda og ræktað þau sem fyrir voru?

„Mér hefðu þótt slíkar hugsanir hlægilegar þegar ég var 25 ára, en með aldrinum hef ég áttað mig á mikilvægi þeirra,“ segir Bill Gates.

Lesa má pistil hans í heild hér.