Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 9,25%.
„Verðbólga hefur hjaðnað undanfarið og mældist 7,6% í júlí. Framlag húsnæðisliðarins til verðbólgu hefur minnkað, dregið hefur úr alþjóðlegum verðhækkunum og gengi krónunnar hækkað. Innlendar verðhækkanir hafa hins vegar reynst þrálátar og eru enn á breiðum grunni. Undirliggjandi verðbólga hefur því minnkað hægar en mæld verðbólga og var 6,7% í júlí.
Hagvöxtur mældist 7% á fyrsta fjórðungi þessa árs og atvinnuleysi hefur haldið áfram að minnka. Enn er því töluverð spenna á vinnumarkaði og í þjóðarbúinu í heild þótt vísbendingar séu um að tekið sé að hægja á vexti efnahagsumsvifa.
Verðbólguhorfur til lengri tíma hafa lítið breyst þótt horfur til skamms tíma hafi batnað frá því í maí. Þá eru verðbólguvæntingar til lengri tíma vel yfir markmiði. Því er enn hætta á að verðbólga reynist þrálát.
Í ljósi þess er nauðsynlegt að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Einkum er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags. Vísbendingar eru um að áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram og mun peningastefnan á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.
Vextir verða því sem hér segir:
1. Daglán 11,0%
2. Lán gegn veði til 7 daga 10,0%
3. Innlán bundin í 7 daga 9,25%
4. Viðskiptareikningar 9,0%