Milljarða skattar sem falla á landsmenn hluti af „háleitum markmiðum“ í loftslagsmálum

„Í júní sendu íslenskir atvinnurekendur utanríkisráðherra bréf til að vara við áhrifum væntanlegra skatta á sjóflutninga og bentu á mikilvægi þess að taka tillit til sérstöðu Íslands sem eyju í Norður Atlandshafi.
Bréfinu hefur enn ekki verið svarað og í gær ræddi RÚV við forstjóra Eimskips sem sagði stjórnvöld ekki hafa staðið sig í hagsmunagæslu fyrir landið. Hann benti á hvaða áhrif þetta myndi hafa á flutningskostnað, vöruverð, samkeppnisstöðu framleiðenda osfrv,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra. Hann undrast lindkind íslenskra stjórnvalda gagnvart Evrópusambandsins og óttast að ballið sé rétt að byrja þegar kemur að auknum álögum á neytendur hér á landi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur ekki áhyggjur af milljarða aukakostnaði sem leggjast mun á innflutningsaðila og á endanum líklega neytendur með hækkuðu vöruverði. Og þar með á verðbólguna hér á landi.

Hún sagði í kvöldfréttum RÚV að þetta væri miklu minna hagsmunamál fyrir Ísland en fyrirhugaðar breytingar ESB gagnvart flugi, íslensk stjórnvöld hafi verið meðvituð um nýjar reglur Evrópusambandsins um mengunarkvóta í sjóflutningum og núna greiði skipaflotinn ekkert fyrir mengun. Sagði ráðherrann þetta „hluta af háleitum markmiðum í loftslagsmálum“ sem Ísland taki þátt í.

Hin nýja tilskipun sem um ræðir og Ísland er skuldbundið til að taka upp, fjallar mengunarkvóta í sjóflutningum og gengur út á að skylda skipafélög til að kaupa losunarkvóta vegna mengunar.
„Þetta er hluti af þessum stóra pakka um loftslagsmálin almennt þannig að við vissum af þessu. Við vorum meðvituð um þetta og við funduðum með hagaðilum hér, bæði í lok júní og júlí svo nú er þetta bara í þessu EES ferli,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra í fréttum RÚV.

Um þetta segir Sigmundur Davíð á fésbókinni í kvöld:

„Enn á ný stendur til að hækka álögur á landsmenn til að elta glórulausa umhverfisstefnu ESB (sem bitnar sérstaklega illa á Íslandi).

Í dag mætti svo utanríkisráðherra í viðtal og sagðist vita af málinu en virtist ekki hafa neinar áhyggjur af því. Svaraði bara með vanalegu punktunum um að ríkisstjórnin hafi sett sér markmið og vilji fylgja loftslagsstefnu ESB þannig að þetta sé bara svona. Það var ekki einu sinni haft fyrir því að þykjast ætla að taka á þessu (sbr. flugmálið).

Þetta er þó bara rétt að byrja. ESB með Ísland í eftirdragi er að fara að hækka verulega refsigjöld á eldsneyti, flutninga á landi, aðföng fyrirtækja og nánast allt mannlegt líf. Allt mun það rýra kjör og lífsgæði almennings á Íslandi en gjöldin renna úr landi.

Stjórnin er svo spennt fyrir að elta þessa vanhugsuðu loftslagsstefnu að Í stað þess að tala máli Íslands gagnvart ESB tala ráðherrar máli ESB gagnvart Íslendingum.“

Og lokaorð Sigmundar Davíðs eru þessi:

„Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki bara haldinn Stokkhólmsheilkenninu gagnvart VG heldur ESB líka.“