Nákvæmlega enginn fótur fyrir hálfkveðnum vísum um skort á gagnsæi í sjávarútvegi

„Það gekk heilt yfir vel á liðnu ári í sjávarútvegi, en það er ekki alltaf þannig. Það er ekki á vísan að róa í þessari grein. Við erum háð duttlungum náttúrunnar, sem gerir það að verkum að sum ár er aflinn góður en önnur þurfum við að horfa upp á litlar sem engar heimildir í sumum af helstu tegundum okkar. En við þurfum líka að búa við duttlunga stjórnvalda. Það getur verið öllu snúnara. Síðasta útspilið er furðuleg leit að sátt. Grunnurinn virðist vera könnun þar sem mikill meirihluti þeirra, sem taka þátt í henni, hefur lýst því yfir að hann hafi litla eða enga þekkingu á sjávarútvegi. Niðurstaða skýrslu sem kom nýverið út, undir heitinu Auðlindin okkar, er samt nokkuð afgerandi – íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hefur virkað í að tryggja arðsemi í sjávarútvegi og þjóðhagslegur ábati kerfisins er mikill,“ sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á Sjávarútvegsdeginum í Hörpu í gær.

Hún sagði merkilegt að þurfa sífellt að minna á, að hlutverk okkar allra sé að skapa sem mest verðmæti úr þeim auðlindum sem okkur er falin ábyrgð á.

„Til þess að það geti gerst þurfum við að halda okkur við þær leiðir sem hafa gerið góða raun og tryggja að til staðar sé nauðsynlegt svigrúm til fjárfestinga frá einum tíma til annars. Blómleg fjárfesting er enda forsenda framfara og aukinnar verðmætasköpunar í framtíð. Mikill samdráttur í olíunotkun sjávarútvegs á liðnum árum og verulega aukin nýting á þeim afla sem dreginn er úr sjó, eru góð dæmi um afrakstur vel heppnaðra fjárfestinga.

Og það sem meira er um vert í þessu samhengi er að þarna er alla jafna um að ræða fjárfestingu í nýsköpun – við höfum notað íslenskt hugvit til þess að auka verðmæti í rótgróinni auðlindadrifinni atvinnugrein,“ bætti hún við.

Heiðrún Lind sagði einnig á fundinum að gagnsæi í sjávarútvegi virðist nú orðið eitt stærsta viðfangsefni matvælaráðuneytisins og ráðherrans Svandísar Svavarsdóttur, sem hafi í nýlegri grein sagt ríkan vilja þjóðarinnar að auka gagnsæi í sjávarútvegi. 

Hvaða upplýsingar skortir?

„Gagnsæi er að sönnu mikilvægt. Gagnsæi er enda forsenda trausts. En ég viðurkenni að ég hef átt erfitt með að greina hvað það er nákvæmlega sem á skortir í opinberum upplýsingum um sjávarútveg. 

Eftirlit með reglum sem gilda um hámarkshlutdeild og tengda aðila er á hendi Fiskistofu þar sem opinberar upplýsingar úr fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra, sem er öllum aðgengileg, liggja til grundvallar. Þær upplýsingar eru orðnar enn ítarlegri eftir nýlegar lagabreytingar sem kveða á um skyldu til að upplýsa um raunverulega eigendur fyrirtækja. Hið sama gildir um upplýsingar úr ársreikningaskrá. Þær eru sömuleiðis öllum aðgengilegar. 

Raunar er það svo að fiskiskip og útgerðir geta sig nánast hvergi hreyft án þess að Fiskistofa hafi af því veður –  og það er vel. Strangar reglur gilda til að mynda um tilkynningar til Fiskistofu um landanir og afla, sem allt er aðgengilegt í rauntíma á gagnasíðum Fiskistofu. Þar má meðal annars sjá allar upplýsingar um hlutdeildir, úthlutanir, veiðileyfi eftir tegundum, aflamark, viðskipti með aflamark, landanir og aflastöður, tegundatilfærslur, flutning á milli ára, umframveiði o.s.frv., allt saman sundurgreint eftir árum, útgerðum, skipum, löndunarhöfnum, tegundum o.fl. Raunar eru þessi gögn það ítarleg og gagnsæ að til eru dæmi um að samningsstaða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hafi verið skert gagnvart erlendum kaupendum sem nýta sér þessar upplýsingar óspart.

Þá fer ýmis konar söfnun og birting upplýsinga fram hjá Hagstofu Íslands, Samgöngustofu, Verðlagsstofu skiptaverðs, Landhelgisgæslu og tollayfirvöldum.

Og atvinnugreinin hefur sjálf stuðlað að auknu gagnsæi, þar sem fjöldi fyrirtækja hafa sett stefnu í samfélagsábyrgð og birt ýmis konar ófjárhagslegar upplýsingar. Því til viðbótar eru tvö af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins með hlutabréf skráð í kauphöll og þriðja fyrirtækið á leið þangað í lok árs. Á þeim aðilum hvílir því rík upplýsingaskylda. 

Þá má ekki gleyma Radarnum, sem SFS heldur úti og hefur að geyma eins konar mælaborð sjávarútvegs á netinu. Og að endingu er það svo auðvitað þessi góði dagur – Sjávarútvegsdagurinn – sem nú er haldinn í tíunda sinn. Sjávarútvegur – og nú fiskeldi – eru einu atvinnugreinarnar sem boða til sérstaks fundar árlega, til þess að ræða afkomu, rekstur og fjárhagslega stöðu atvinnugreinanna ár frá ári. 

Og við munum halda þessu áfram. Því samtalið er mikilvægt. Gagnsæi er mikilvægt. En á sama tíma vil ég að öllum sé það ljóst, að það er nákvæmlega engin fótur fyrir hálfkveðnum vísum um skort á gagnsæi þegar kemur að sjávarútvegi. Ég fullyrði að engin atvinnugrein, hvort heldur hér á landi eða á hinum alþjóðlega vettvangi sjávarútvegs, hefur jafn mikið magn upplýsinga aðgengilegt hverjum þeim sem vill afla sér frekari þekkingar,“ sagði hún ennfremur.