Novator selur hlut sinn í Play fyrir 70 milljarða

Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir. / Ljósmynd af btb.is


Fjárfestingafélagið Novator hefur samþykkt kauptilboð í pólska fjarskiptafyrirtækið Play. Kaupandinn er franska fjarskiptafyrirtækið Iliad Group, sem í kjölfarið gerir öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Gengi viðskiptanna er tæp 39% hærra en lokagengi Play í pólsku kauphöllinni á föstudaginn. Miðað við það er markaðsvirði hlutafjár Play metið á 2,2 milljarða evra og hlutur Novator því 440 milljónir evra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Novator í morgun. Félagið kom að stofnun Play árið 2005, í gegnum eignarhaldsfélagið P4. Félagið var þá valið í útboði pólska ríkisins til að hafa umsjón með uppbyggingu 3G fjarskiptakerfisins í Póllandi. Frá stofnun Play var félagið í harðri samkeppni við fjarskiptarisa á borð við T-Mobile, Orange og Plus, sem þá var í eigu Vodafone og TeleDanmark. Árið 2007 keypti félagið 400 sölustaði í Póllandi og sama ár eignaðist Novator meirihluta í félaginu. Vöxtur Play var hraður og félagið markaði sér fljótt sterka markaðsstöðu. Félagið var skráð á markað í Kauphöllinni í Varsjá árið 2017.

„Það var markmið okkar með stofnun Play fyrir 15 árum að byggja upp öflugt fjarskiptafyrirtæki sem myndi bjóða neytendum í Póllandi upp á góða þjónustu, samkeppnishæft verð og nýjungar á markaði,“ segir Björgólfur Thor Björgólfsson, eigandi Novator.

„Það hefur gengið eftir og Play er í dag stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins og verður hluti af sjötta stærsta símafyrirtæki Evrópu eftir kaup Iliad. Við erum stolt af fjárfestingunni og þeim árangri sem félagið hefur náð undir okkar stjórn síðastliðin 15 ár. Nú er þessum mikilvæga kafla lokið og við nýtum reynsluna til uppbyggingar á öðrum mörkuðum. Í því sambandi horfum við núna til Suður-Ameríku þar sem tækifæri er til að skapa sér stöðu á fastmótuðum mörkuðum.“

Novator hefur leitt uppbyggingu fjarskiptafélagsins í samstarfi við aðra fjárfesta á þeim 15 árum sem liðin eru frá stofnun þess, byggt upp sterka innviði og tekið þátt í hraðri tækniþróun á fjarskiptamarkaði. Play er í dag stærsta fjarskiptafélag Póllands með yfir fimmtán milljónir viðskiptavina og 28% markaðshlutdeild.

Novator hefur sérhæft sig í fjárfestingu og uppbyggingu á fyrirtækjum sem hafa þá eiginleika að vera brautryðjendur á markaði, til dæmis á fjarskiptamarkaði. Til viðbótar við stofnun og rekstur Play kom Novator að stofnun Nova á Íslandi, WOM í Chile og vinnur nú að uppbyggingu WOM í Kólombíu, segir þar ennfremur.