Óskar þess stundum að Hæstiréttur Íslands væri í Kaupmannahöfn

„Þetta er lítið land. Ég hef stundum sagt að ég óski þess að Hæstiréttur Íslands væri í Kaupmannahöfn því þá er líklegra að eingöngu verði dæmt á lagalegum grundvelli.,“ segir Guðmundur útgerðarmaður Kristjánsson, oftast kenndur við Brim, en hann var útnefndur Viðskiptamaður ársins af Markaði Fréttablaðsins nú í vikunni.

Guðmundur fer hörðum orðum um íslenskar eftirlitsstofnanir í viðtalinu og vekur athygli, að Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, talaði á líkum nótum í viðtali við Viljann í gær.

Guðmundur segir í viðtalinu við Fréttablaðið, að ástandið hér á landi megi ekki vera þannig að einhver kverúlant hjá eftirlitsstofnun segi: Æ, mér er illa við þennan, þetta er KR-ingur. Við skulum nota kerfið til að níðast á honum. Mikilvægt sé að íslenskar eftirlitsstofnanir fari með nærgætni og aðgát við rannsókn mála.

Sat ekki lengur í stjórn Vinnslustöðvarinnar

Hann tekur einfalt dæmi af frummati Samkeppniseftirlitsins frá í sumar, þar sem fjallað var um kaup hans á stórum hlut í HB Granda. Af meiri nærgætni og aðgát en nú?

„Við fengum fjórar spurningar frá Samkeppniseftirlitinu og ein af þeim sneri að því að ég væri í stjórn Vinnslustöðvarinnar. Ég hafði hætt í stjórninni þremur mánuðum áður og það voru opinberar upplýsingar. Það stendur í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra að ég sé farinn út úr stjórninni. En þrátt fyrir það var gerð athugasemd um að ég sæti í stjórn Vinnslustöðvarinnar og í framhaldi var sent bréf til stjórnarinnar og hún beðin um álit á kaupum mínum í HB Granda. Þegar það álit Vinnslustöðvarinnar kom til Samkeppnisstofnunar var það bara rógburður um mig. Maður spyr sig hvernig standi á því að opinber eftirlitsstofnun sendi svona illa undirbúna fyrirspurn og hvernig gat þessi fyrirspurn komist í gegnum innra eftirlit Samkeppniseftirlits áður en þetta bréf var sent út og það sent á fjölmiðla?“ segir Guðmundur.

„Svo segja allir að ég megi ekkert segja um Samkeppniseftirlitið því annars fái ég bara allt eftirlitskerfið á mig. Það er eins og Samkeppniseftirlitið sé stofnun sem enginn þorir að segja neitt um. Eins og það gangi hérna á vatni og allir pissi í buxurnar ef það kemur. Ef enginn þorir að segja barninu á heimilinu til syndanna þá yfirtekur það heimilið.“ bætir forstjóri HB Granda við.

Viðtal Viljans við Ara Edwald í gær. Þar gagnrýndi hann eftirlitsstofnanir líka harðlega, benti t.d. á sjö ára baráttu Samherja við Seðlabankann, máli sínu til stuðings.