Ráðstafanir gerðar á Egilsstöðum og Akureyri ef gýs í sjó nálægt Keflavíkurflugvelli

Ef eldgos kemur upp í sjó nálægt Reykjanesinu verður það sprengigos með gjósku sem munu trufla flugsamgöngur verulega á Keflavíkurflugvelli. Flugmálayfirvöld hér á landi hafa rýnt það mjög vel og hafa ráðstafanir gagnvart öðrum alþjóðaflugvöllum, sem eru þá Egilsstaðir og Akureyri, til að flugumferð verði beint þangað og sú vinna hefur sömuleiðis staðið yfir, sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í dag í svari við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins og fv. forsætisráðherra um aðgerðir vegna jarðhræringanna á Reykjanesi.

„Eins og fram hefur komið í fréttum eygja nú Grindvíkingar aukna von um að fá að komast heim um tíma til að skoða fasteignir sínar og sækja fleira af því sem þeir þurfa á að halda þaðan. Þetta er vegna þess að vísindamenn telja nú minni líkur en áður á að gos, komi það upp, komi upp í bænum eða rétt við hann, telja að líkur standi til að gos komi upp norðaustur af Grindavík, í nokkurri fjarlægð en þó ekki það langt frá bænum að hraun gæti ekki runnið þangað í stærra gosi,“ sagði Sigmundur Davíð og spurði dómsmálaráðherra til hvaða ráðstafana hafi verið gripið til eða verði gripið til til þess að verja byggðina í Grindavík.

„Eins og við þekkjum eru farnar af stað heilmiklar framkvæmdir til að verja Svartsengi og Bláa lónið, en hvaða leiðir sjá menn til að verja byggðina í Grindavík, sérstaklega ef það stefnir í að ef gýs þá verði það þarna norðaustur af bænum? Einnig spyr ég ráðherrann út í aðrar hugsanlegar ráðstafanir sem annaðhvort hefur verið gripið til eða stendur til að grípa til til að verja bæinn og ráðstafanir til að takast á við ólíkar sviðsmyndir, til að mynda ef flugsamgöngur myndu raskast, þ.e. að ekki yrði hægt að fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli í einhvern tíma. Hafa stjórnvöld hugað að því að undirbúa þá aðra flugvelli, aðra millilandaflugvelli á Íslandi, til að taka á móti þeirri umferð á meðan?“ sagði Sigmundur Davíð ennfremur.

Dómsmálaráðherra sagði mikilvægt að verja orkuverið í Svartsengi , bæði gagnvart Grindavík en ekki síður gagnvart íbúum á Reykjanesskaga öllum.

„Það hefur verið vitað allan tímann að það hafa verið líkur á gosi, jafnvel inni í Grindavík, í Sundhnúkagígaröðinni sem er fyrir norðaustan Grindavík eða jafnvel fyrir vestan Svartsengi. Allar sviðsmyndirnar eru slæmar og ef það hefst gos í Sundhnúkagígaröðinni norðaustur af bænum þá eru líkur til þess að hraun myndi renna til bæjarins. Nú þegar er búið að hanna leiðigarða og varnargarða þar fyrir norðan byggðina sem eiga að beina hraunflæði austur fyrir byggðina í Grindavík.

Sömuleiðis er búið að hanna varnargarða fyrir vestan bæinn þannig að ef það kæmi upp kvika, segjum fyrir vestan Svartsengi eða í Eldvörpum, þá ætti að vera með tiltölulega hröðum hætti hægt að ýta upp leiði- og varnargörðum til að verja byggðina þeim megin. Stærsta áhyggjuefni okkar hefur verið orkuverið og við erum að gera, af okkar veikasta mætti, allt sem hægt er til að sjá við móður jörð til að verja orkuverið í Svartsengi,“ sagði dómsmálaráðherra í svari sínu.