Reglur um aðra skimun og sóttkví fyrir Íslendinga taka gildi eigi síðar en 13. júlí

Dr. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Lögreglan

Sóttvarnalæknir hefur lagt til við heilbrigðisráðherra að breyta reglum um skimun á landamærum vegna COVID-19. Breytingin snýr eingöngu að íslenskum ríkisborgurum og þeim sem eru búsettir hér á landi.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðherra segir að sem fyrr verði hægt að velja á milli 14 daga sóttkvíar eða skimunar á landamærum en gert er ráð fyrir að einstaklingar úr fyrrnefndum hópi sem velja skimun þurfi að fara aftur í skimun 4 – 5 dögum eftir komuna til landsins og vera í sóttkví þar til niðurstaða seinni sýnatökunnar liggur fyrir.

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis þessa efnis og er stefnt að því að breytingin komi til framkvæmda eigi síðar en 13. júlí.

Fram kemur í minnisblaði sóttvarnalæknis að reynslan af skimun á landamærum hafi leitt í ljós hættu á því að einstaklingar sem hafa smitast nýlega beri með sér smit sem greinist ekki við landamæraskimun en komi fram síðar. Sóttvarnalæknir telur að tilvik sem þessi skapi hættu á hópsmitum og þá sérstaklega þegar í hlut eiga einstaklingar með útbreitt tengslanet hér á landi. Þess vegna leggur hann til að breyttar reglur um skimun taki ekki til almennra ferðamanna heldur verði bundnar við íslenska ríkisborgara og aðra sem eru búsettir hér á landi.

Heilbrigðisráðherra hefur sem fyrr segir fallist á þessa tillögu sóttvarnalæknis og er undirbúningur að breyttu fyrirkomulagi hafinn. Breyting á reglum um sóttkví og einangrun vegna COVID-19 í samræmi við þetta er í undirbúningi og verður send Stjórnartíðindum til birtingar innan skamms.

Fyrir liggur að þeir sem þurfa að fara í tvær sýnatökur samkvæmt fyrirhugaðri breytingu á reglum um sýnatöku á landamærum þurfa ekki að greiða fyrir seinni sýnatökuna.

Hér að neðan má lesa minnisblað sóttvarnalæknir til heilbrigðisráðherra:

Dagsetning: 29. júní 2020
Höfundur: Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir
Viðtakandi: Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra
Efni: Minnisblað sóttvarnalæknis varðandi aðgerðir gegn COVID-19.

Frá því að skimanir fyrir COVID-19 á landamærum voru teknar upp þ. 15. júní sl. hafa um 17.500 ferðamenn komið hingað til lands og sýni tekin frá um 12.500 einstaklingum. Virk smit hafa fundist hjá fjórum einstaklingum og hafa þeir verið settir í einangrun. Einn þessara einstaklinga sem kom frá Bandaríkjunum náði að smita fjóra einstaklinga og hafa rúmlega 400
einstaklingar verið settir í sóttkví eftir smitrakningu.

Þessi einstaklingur greindist ekki með veiruna við skimun á landamærum. Enginn er alvarlega veikur. Þannig má segja að ákveðið bakslag hafi komið í COVID-19 faraldurinn hér á landi á sl. dögum en það var ekki óviðbúið. Því hefur alltaf verið haldið fram að hér myndu áfram greinast einstaka tilfelli og jafnvel litlar hópsýkingar brjótast út.

Viðbrögðin við þessari hópsýkingu hafa verið eins og áður þ.e. sýnataka hjá grunuðum, einangrun smitaðra og sóttkví útsettra.

Vegna ofangreindra atvika og til að lágmarka áhættuna á því að faraldurinn nái sér á strik hér á landi þá legg ég til eftirfarandi:

  1. Haldið verði áfram að skima á landamærum næstu vikurnar og a.m.k út júlí mánuð með óbreyttu sniði.
  2. Á þessari stundi verði áfram leyft, að um 2.000 ferðamenn komi inn í landið að hámarki per dag. Síðar verði skoðað hvort hægt verði að auka þennan fjölda og jafnvel breyta áherslum í skimuninni.
  3. Á þessari stundi verði ekki beitt sóttkví á ferðamenn en til greina komi að setja Íslendinga og ferðamenn búsetta hér á landi sem koma frá löndum með mikla áhættu á COVID-19, í sóttkví með möguleika á sýnatöku eftir 4-5 daga. Hættan á smiti frá sýktum Íslendingi er margfalt meiri en frá smituðum erlendum ferðamanni vegna útbreiddara tengslanets.
  4. Hámarksfjöldi einstaklinga sem nú er leyfður að komi saman er 500 einstaklingar. Lagt er til að þessi fjöldi verði óbreyttur um sinn.
  5. Skemmti- og veitingastaðir eru nú með leyfi fyrir opnun til kl. 23:00. Lagt er til að þetta verði óbreytt um sinn.
  6. Áróður til almennings um einstaklingsbundnar sýkingavarnir verði efldur.