Reykjavíkurflugvöllur á að vera á sínum stað og enginn mun nota borgarlínuna

Óhætt er að mæla með athyglisverðu viðtali við frumkvöðulinn Guðmund Fertram Sigurjónsson, stofnanda Kerecis á Ísafirði og formanns Samtaka fyrirtækja í líf- og heilbrigðistækni, á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Kerecis, var selt á 170-180 milljarða króna fyrir helgi, eins og greint var rækilega frá, en forstjórinn segir ekki ástæðu til að óttast að Vestfirðir verði ekki áfram heimavöllur fyrirtækisins. Hann lýsti hins vegar mikilli þörf á samgöngubótum við Vestfirði í viðtalinu og gagnrýndi samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar og áform um að leggja niður Reykjavíkurflugvöll og setja gríðarlega fjármuni í uppbyggingu svonefndrar borgarlínu.

Sagði Guðmundur brýnast að tengja Vestfirði við suðvesturhornið með láglendisvegi. Áætlaður kostnaður við slíka framkvæmd gæti verið um fimmtíu milljarðar, en árlegar tekjur fyrirtækja á borð við Kerecis og fiskeldisfélög í fjórðungnum nemi tvö- eða þrefaldri þeirri upphæð.

Einna athyglisverðust voru ummæli Guðmundar í viðtalinu um borgarlínuna, sem hann sagði fráleita framkvæmd um tækni gærdagsins. „Tími almenningssamgangna er búinn. Nú er þetta sjálfkeyrandi bílar og deilibílar. Í stórborgum út í heimi er eftirspurn eftir almenningssamgöngum að minnka. Hún er að færast yfir í Uber og Lyft.“

Benti Guðmundur á að slíkir bílar verði sjálfkeyrandi innan fárra ára, þá eigi fæstir eftir að eiga bíla sjálfir og enginn muni nota almenningssamgöngur. Því sé fráleitt að verja 2-300 milljörðum í slíkar framkvæmdir.