Ríkisendurskoðun telur Bankasýsluna ekkert hafa lært af úttektinni um Íslandsbankaklúðrið

Tíðindi halda áfram að berast í um hneykslið varðandi söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka, nú með því að Ríkisendurskoðun hefur ákveðið að fylgja eftir niðurstöðum stjórnsýsluúttektar á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022, sem birtar voru í skýrslu á vef embættisins þann 14. nóvember 2022. Hefur fjármála- og efnahagsráðuneyti verið kynnt ákvörðun embættisins í bréfi, sem jafnframt hefur verið sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og er óhætt að segja að formaður og forstjóri Bankasýslu ríkisins fái það þar óþvegið með ummælum sem sæta miklum tíðindum.

Á vef Ríkisendurskoðunar segir: „Seðlabanki Íslands birti þann 26. júní sl. samkomulag hans við Íslandsbanka hf. um að ljúka með sátt máli vegna brota Íslandsbanka hf. við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fyrirtækinu. Sáttin varðar ekki stjórnsýslu Bankasýslu ríkisins sem framkvæmdaraðila sölunnar, enda fellur Bankasýsla ríkisins ekki undir Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands. Verða því engar ályktanir dregnar af sáttinni um stjórnsýslu Bankasýslu ríkisins.

Ríkisendurskoðun getur ekki dregið aðra ályktun af málflutningi fulltrúa Bankasýslu ríkisins á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd, sem haldinn var 28. júní sl., en að stofnunin hafi fyrir sitt leyti engan lærdóm dregið af skýrslu Ríkisendurskoðunar og að ekki standi til af hennar hálfu að axla neina þá ábyrgð sem henni ber sem framkvæmdaraðila útboðsins og fjallað er um í skýrslunni. Af þessu tilefni hefur Ríkisendurskoðun óskað eftir ítarlegum upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti um stöðu mála er varðar ábendingar nr. 1 og nr. 5 og til hvaða ráðstafana ráðuneytið hafi gripið með það að markmiði að styrkja eftirfylgni með eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki og koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.“