Ný talning HMS sýnir samdrátt í fjölda íbúða í byggingu hér á landi. Í ljós kemur að uppbyggingin mætir aðeins rúmlega helmingi af íbúðaþörf. Þá er athyglisvert að sjá spá stofnunarinnar fyrir árið 2026, sem sýnir hrun í framkvæmdum.
Umfang nýrra framkvæmda dregst saman um þriðjung á milli ára og fjöldi íbúða er á sama framvindustigi og þær voru fyrir ári síðan.
Áætluð íbúðaþörf, samkvæmt miðspá í Mælaborði húsnæðisáætlana, nemur 4.208 íbúðum fyrir árið 2024 og 4.921 íbúð fyrir árið 2025. Þar að auki leiða búferlaflutningar Grindvíkinga til aukinnar húsnæðisþarfar á þessu ári og því næsta, en um 1.200 íbúðir eru skráðar í bænum.
„HMS metur því að íbúðaþörf fyrir árin 2024 og 2025 nemi yfir 10 þúsund íbúðum, á meðan fullbúnum íbúðum muni aðeins fjölga um 5.788 talsins. Fjöldi íbúða sem stofnunin áætlar að koma á markað á þessu ári og því næsta mun því einungis fullnægja um 56 prósent af íbúðaþörf,“ segir á vef HMS.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segist í samtali við Viljann, ekki vera undrandi á þessum tölum.
„Við höfum bent á þetta reglulega síðustu árin en sveitarfélögin með Reykjavík í fararbroddi hafa því miður verið of sein að bregðast við.“