Nú er orðið ljóst að dómstóll í Namibíu mun ekki taka fyrir fyrr en á næsta ári beiðni forsvarsmanna Esju Holding, Mermaria Seafood Namibia, Saga Seafood, Heinaste Investment, Saga Investment og Esja Investment um að fá upplýsingar frá embætti ríkissaksóknarans þar í landi hvort ákæru sé að vænta gegn þeim í Samherjamálinu eða hvort tækifæri gefist til að gagnspyrja lykilvitni ákæruvaldsins, uppljóstrarann Jóhannes Stefánsson.
Dagblaðið New Era, sem gefið er út af stjórnvöldum í Namibíu, skýrir frá því í dag að dómari hafi ákveðið sl. föstudag að þessi þáttur Fishrot-málsins verði ekki tekinn fyrir fyrr en 26. janúar 2022.
Ríkissaksóknarinn varð ekki við beiðni Samherja og umræddra dótturfélaga um að hraða málinu og gefa skýr svör um stöðu þeirra í málinu öllu. Hefur ríkissaksóknarinn áður lýst þeirri skoðun sinni að beiðnin sé einhverskonar veiðiferð af hálfu Samherja til að komast að Jóhannesi sem fyrirtækin hafi miklar efasemdir um að ætli sér yfirleitt til Namibíu að bera vitni í málinu.
Lögmenn fyrirtækjanna hafa krafist upplýsinga um hvort til standi að rétta yfir þeim samhliða sextán namibískum sakborningum en ekki fengið nein svör þar að lútandi. Vilja þeir vita hvort til standi að fara fram á framsal fyrrverandi stjórnenda félaganna og hvort Jóhannes njóti verndar með stöðu uppljóstrara af hálfu saksóknara í mögulegum málaferlum.
Lögmenn Samherjafélaganna hafa, að sögn dagblaðsins, hug á því að spyrja Jóhannes undir eiði um ásakanir þær sem hann hefur sett fram, til dæmis hvort hann hafi komið einn að meintum mútugreiðslum í skiptum fyrir fiskveiðiheimildir eða unnið að skipan yfirboðara sinna. Ítrekað hefur komið fram af hálfu Samherja hér á landi, að fyrirtækið hafi ekki haft vitneskju um þær og Jóhannes hafi starfað þar í landi á eigin ábyrgð.
Lögmenn Samherja hafa margoft gefið í skyn að þeir telji Jóhannes ekki munu skila sér fyrir dóm í rétt, þar sem sök kunni að falla á hann í réttarhöldunum þegar öll gögn og vitnaleiðslur koma fram. Því hefur hann hafnað með öllu.