Samrunaferli er hafið í íslenskri ferðaþjónustu, ekki síst að frumkvæði banka og fjármálafyrirtækja sem vilja gæta hagsmuna sinna þar sem blikur eru á lofti í greininni.
Viðræður um samruna ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures og fimm félaga í eigu Icelandic Tourism Fund, sem er í rekstri Landsbréfa, eru á lokastigi, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins sem segir í frétt í dag, að stefnt hafi verið að því að tilkynna opinberlega um viðskiptin í gær, en það hafi ekki tekist.
Með samrunanum yrði til eitt stærsta afþreyingarfyrirtækið í íslenskri ferðaþjónustu. Heimildir Morgunblaðsins herma að meðal þeirra fimm félaga sem stefnt sé að því að sameina Arctic Adventures séu félagið Into the Glacier sem rekur ísgöngin í Langjökli og afþreyingarfyrirtækið The Lava Tunnel sem býður upp á ferðir í Raufarhólshelli í Leitahrauni í Ölfusi.
Samþjöppun og sameiningar framundan
Athygli vekur, að Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, spáði í viðtali við Viljann um áramótin, því að tíðinda væri að vænta í íslenskri ferðaþjónustu.
Um árið 2019, sem senn gengur í garð, sagði viðskiptaritstjórinn:
„Flest bendir til að átök og deilur á vinnumarkaði muni óhjákvæmilega setja mark sitt á fyrstu mánuði ársins. Þá munu fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu áfram þurfa að leita allra leiða til aðlaga rekstur sinn að nýju jafnvægi eftir þann ofurvöxt sem einkennt hefur ferðaþjónustuna á síðustu árum.
Launakostnaður í greininni er alltof hár, rétt eins og í flestum öðrum atvinnugreinum, og fyrirtækin hafa engan annan valkost en að ráðast í hagræðingu, einkum með samþjöppun og sameiningum fyrirtækja í miklu stærri einingar. Sú þróun er aðeins rétt hafin.“