Samrunaferli hafið í ferðaþjónustu: Risafélag að verða til

Ferðamennska er orðin stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. Hún er nú hrunin, amk. tímabundið. Ljósmynd/Ferðamálastofa.

Samrunaferli er hafið í íslenskri ferðaþjónustu, ekki síst að frumkvæði banka og fjármálafyrirtækja sem vilja gæta hagsmuna sinna þar sem blikur eru á lofti í greininni.

Viðræður um samruna ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæk­is­ins Arctic Advent­ur­es og fimm fé­laga í eigu Icelandic Tourism Fund, sem er í rekstri Lands­bréfa, eru á loka­stigi, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins sem segir í frétt í dag, að stefnt hafi verið að því að tilkynna opinberlega um viðskiptin í gær, en það hafi ekki tekist.

Með samrun­an­um yrði til eitt stærsta afþrey­ing­ar­fyr­ir­tækið í ís­lenskri ferðaþjón­ustu. Heim­ild­ir Morg­un­blaðsins herma að meðal þeirra fimm fé­laga sem stefnt sé að því að sam­eina Arctic Advent­ur­es séu fé­lagið Into the Glacier sem rek­ur ís­göng­in í Lang­jökli og afþrey­ing­ar­fyr­ir­tækið The Lava Tunn­el sem býður upp á ferðir í Raufar­hóls­helli í Leita­hrauni í Ölfusi.

Samþjöppun og sameiningar framundan

Athygli vekur, að Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, spáði í viðtali við Viljann um áramótin, því að tíðinda væri að vænta í íslenskri ferðaþjónustu.

Um árið 2019, sem senn gengur í garð, sagði viðskiptaritstjórinn:

„Flest bendir til að átök og deilur á vinnumarkaði muni óhjákvæmilega setja mark sitt á fyrstu mánuði ársins. Þá munu fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu áfram þurfa að leita allra leiða til aðlaga rekstur sinn að nýju jafnvægi eftir þann ofurvöxt sem einkennt hefur ferðaþjónustuna á síðustu árum. 

Launakostnaður í greininni er alltof hár, rétt eins og í flestum öðrum atvinnugreinum, og fyrirtækin hafa engan annan valkost en að ráðast í hagræðingu, einkum með samþjöppun og sameiningum fyrirtækja í miklu stærri einingar. Sú þróun er aðeins rétt hafin.“