„Nokkuð sérstakt hefur verið að fylgjast með umræðu þar sem fyrirtæki okkar leikur, því miður, það hlutverk að fullnægja ákveðinni hneykslunarþörf þeirra sem hafa deilt myndbandi þar sem verðmiði er tekinn ofan af eldri verðmiða og um leið gefið í skyn að við höfum hækkað verð sérstaklega fyrir útsölur,“ segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi.
Ýmsir hafa deilt myndbandi á samskiptamiðlum, þar sem sjá má verðmiða úr Lindex. Þegar límmiði á honum er tekinn af, kemur í ljós lægra verð en var límt yfir. Af þessu hefur fólk dregið þá ályktun að verð hafi verið hækkað sérstaklega fyrir útsölurnar sem standa nú yfir.
Myndbandinu eytt út þegar staðreyndir lágu fyrir
Lóa segir þetta langt frá raunveruleikanum og forsvarsmenn Lindex hafi haft samband við þann sem gerði myndbandið. Sá hafi samstundis eytt því út af samskiptamiðlum þegar hann áttaði sig á staðreyndum málsins.
Staðreyndin sé að verð í verslununum hafi verið hækkað í nóvember og send um það sérstök tilkynning til vildarvina verslunarinnar:
„Kæri vildarvinur,
Eins og alkunna er hefur gengi íslensku krónunnar tekið miklum breytingum undanfarna mánuði gagnvart helstu gjaldmiðlum og ekki síst gagnvart Bandaríkjadal (USD) sem er okkar innkaupagjaldmiðill. Hækkunin á gjaldmiðlinum nemur tæplega 20% síðan í byrjun ágúst. Við teljum það því ábyrgðarhlutverk, líkt og þegar um gengisstyrkingu er að ræða, að bregðast rétt við þeirri veikingu krónu sem hefur átt sér stað undanfarið með verðbreytingu.
Gengisstyrking síðustu ára hefur verið mætt af okkur með 4 verðlækkunum frá byrjun árs 2016 sem nemur um 27% verðlækkun í heildina. Það er því með miklum trega að við drögum að hluta til baka þær verðlækkanir sem við höfum tilkynnt um s.l. tvö ár með hækkun verðs í fyrsta sinn frá upphafi um að meðaltali 5,9%. Það má þó benda á að þrátt fyrir þessa verðbreytingu stendur eftir myndarlegur hluti af þeim verðlækkunum sem eru undanfari þessara verðbreytinga nú.
Þess má geta að í sumum tilvikum eru sumir verðpunktar ennþá lægri á Íslandi en það sem gengur og gerist í löndum sem við berum okkur gjarnan við, s.s. í Noregi og fjöldi þeirra sem taka engum breytingum ásamt því að í sumum tilvikum lækkar verð þótt því miður séu heildaráhrifin til hækkunar.
Í framhaldi af þessu munum við áfram fylgjast með þróuninni í þeirri von um að það gefi svigrúm til frekari lækkun verðs á nýjan leik.“
Hafa fjórum sinnum lækkað verð
Lóa segir að Lindex á Íslandi hafi frá fyrsta degi verið gegnsætt með sína verðlagningu og meðal annars lækkað verð í fjórgang áður en til þessarar verðhækkunar kom. Hún hafi verið nauðsynleg og hafi ekkert með útsölur nú að gera.
Á fésbókarsíðu Lóu má sjá stuðningskveðjur frá ánægðum viðskiptavinum verslunarinnar, t.d. Ara Edwald, forstjóra MS, sem segir: „Glæsileg frammistaða hjá Lindex, það þekkjum við vel barnafólkið.“