Segir skammtímalán á 15% vöxtum ekki hafa verið neyðarlán

Valdimar Ármann, er hættur sem forstjóri Gamma.

„Nei myndi ekki kalla þetta neyðarlán og lausafjárstaða félagsins var þröng en þekkt enda árshlutsreikningur birtur fyrir 30/6 2018 og opinber,“ segir Valdimar Ármann, forstjóri Gamma, í samtali við Viljann, aðspurður hvort skammtímalán sem fjármálafyrirtækið fékk frá Stoðum sl. haust hafi verið neyðarlán til að bjarga fyrirtækinu frá falli.

Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, segir frá því í dag, að Gamma, sem sameinaðist Kviku banka fyrr á árinu,  hafi fengið síðastliðið haust skammtímalán að fjárhæð einn milljarður króna frá fjárfestingafélaginu Stoðum. Lánið hafi verið til að bæta lausafjárstöðu félagsins, sem var þá afar bágborin, á sama tíma og viðræður stóðu yfir við Kviku um kaup á öllu hlutfé GAMMA.

„Samtals nam heildarþóknun – vextir og lántökugjald – Stoða vegna lánsins í kringum 150 milljónum króna en það var greitt upp að fullu skömmu eftir að Samkeppniseftirlitið lagði blessun sína yfir kaup Kviku á GAMMA í byrjun marsmánaðar. Í lánasamkomulaginu voru meðal annars skilmálar um breytirétt í hlutafé, samkvæmt heimildum Markaðarins, ef viðræður GAMMA og Kviku hefðu runnið út í sandinn. Stoðir hefðu þá haft heimild til að breyta láninu í hlutafé í GAMMA og verða um leið langsamlega stærsti hluthafi félagsins,“ segir ennfremur í frétt Markaðarins.

„Sérkennilegt neyðarlán“

Marinó G. Njálsson, ráðgjafi, sem mikið hefur skrifað um íslenska bankakerfið, segir á fésbókinni að upplýsingar um þetta lán séu afar merkilegar. Ekki sé hægt að túlka þetta öðruvísi en sem algjört neyðarlán, þar sem kostnaðurinn nemi um 15% af lánsfjárhæðinni.

„Skoðum þetta betur. Fjármálafyrirtæki í áhættufjárfestingum er tilbúið að greiða 15% fjármagnskostnað af skammtíma fjármögnun. Hafi fjármögnunin verið til eins mánaðar, þá gerir það árlega hlutfallstölu kostnaðar upp á 180%, tveggja mánaða lánstími þýðir árlega hlutfallstölu upp á 90%, en hafi lánið verið til 3 mánaða, þá var hlutfallstalan 60%.

Marinó G. Njálsson.

GAMMA og Kvika tilkynntu um sameiningu fyrirtækjanna í júní í fyrra. Spurningin er hvort það hafi farið svo illa í einhverja fjárfesta, að þeir hafi flutt fé sitt úr fjárfestingum hjá GAMMA og það hafi sett af stað þá atburðarás sem endaði í þessu sérkennilega neyðarláni. Eða sáu forsvarsmenn GAMMA áður en sameiningin var tilkynnt, að erfiðir tímar væru framundan og sameining væri eina leiðin til að bjarga fyrirtækinu? Hvort sem var, þá endaði þetta þannig, að GAMMA var við það að fara á hliðina og sameiningin við Kviku reyndist neyðaraðgerð sem kom í veg fyrir fall fyrirtækisins. Kvika er hins vegar bara lítill banki og spurningin er hvert rekstrarhæfi bankans er eftir að hafa tekið svona vandræðafyrirtæki yfir,“ skrifar hann.

Valdimar Ármann, segir í skriflegu svari til Viljans, að það sé ekki rétt að áhlaup hafi verið gert á sjóði félagsins. „En vissulega voru innlausnir úr sjóðum, en líka kaup, sem má rekja til þess að hreyfing hefur verið á peningum í leit að ávöxtun en markaðir voru ekki gjöfulir 2017-2018. Heildarstærð sjóða var þó nánast óbreytt frá 2017 til 2018,“ segir hann.

Þess má geta, að stjórnarformaður Stoða er Jón Sigurðsson, fjárfestir. Hann er jafnframt með eiginkonu sinni, Björgu Fenger, einn stærsti hluthafinn í Gamma með tæplega tíu prósenta hlut.