Friðjón R. Friðjónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúi, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til til menningar- og viðskiptaráðherra um fjölda starfsmanna, stöðugilda og einstaklinga í verktöku hjá Ríkisútvarpinu ohf. og RÚV sölu ehf.
Fyrirspurnin er mjög víðtæk og hljóðar svo:
1. Hversu mörg stöðugildi voru hjá Ríkisútvarpinu ohf. á árunum 2018–2022, sundurliðað eftir árum og starfssviðum?
2. Hversu margir voru á launaskrá hjá Ríkisútvarpinu ohf. á árunum 2018–2022, sundurliðað eftir árum og starfssviðum?
3. Hversu margir verktakasamningar voru gerðir hjá Ríkisútvarpinu ohf. á árunum 2018–2022, sundurliðað eftir árum og starfssviðum, og hver var kostnaðurinn við þá?
4. Hversu margir fastir starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. voru einnig verktakar við dagskrárgerð á árunum 2018–2022, sundurliðað eftir árum?
5. Hve háa fjárhæð greiddi Ríkisútvarpið ohf. í verktakagreiðslur 2018–2022, sundurliðað eftir árum.
6. Hversu mörg stöðugildi voru hjá RÚV sölu ehf. á árunum 2020–2022, sundurliðað eftir árum?
7. Hversu margir voru á launaskrá hjá RÚV sölu ehf. á árunum 2020–2022, sundurliðað eftir árum?
8. Hverjir eru fimm fjárfrekustu rekstrarliðir RÚV sölu ehf. á árunum 2020–2022, sundurliðað eftir árum og kostnaði?
9. Hversu margir verktakasamningar voru gerðir hjá RÚV sölu ehf. á árunum 2020–2022, sundurliðað eftir árum, og hver var kostnaðurinn við þá?
10. Hvernig var dagskrárgerðarfólk ráðið til starfa, hvort sem er fast starfsfólk eða verktakar við dagskrárgerð, með auglýsingu eða öðrum hætti, skipt á árin 2020–2022?
11. Í hve miklum mæli eru gerðar fjárhagsáætlanir um einstaka dagskrárliði sem Ríkisútvarpið ohf. er framleiðandi að til flutnings í miðlum Ríkisútvarpsins?
12. Hver var niðurstaða starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra um málefni Ríkisútvarpsins sem skipaður var 21. apríl 2023 og átti að skila af sér fyrir 1. júlí síðastliðinn?