Sigmundur Davíð leggur til afnám vsk á matvæli til að bæta lífskjör og ná niður verðbólgu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, vill sjá alvöru aðgerðir til þess að ná niður verðbólgunni hér á landi strax og bæta lífskjör í landinu. Sagði hann til dæmis hægt að leggja af virðisaukaskatt á matvæli, annað hvort varanlega eða tímabundið í tvö ár, og koma þannig beint til móts við tekjuminni hópa sérstaklega, bæta lífskjör alls almennings og ná niður verðbólgunni. Um væri að ræða beina efnahagsaðgerð sem gagnist öllum Íslendingum strax og mjög vel.

Þetta kom fram í ávarpi Sigmundar Davíðs á landsþingi Miðflokksins nú eftir hádegi. Þar gagnrýndi hann ríkisstjórnina harðlega fyrir stjórnleysi í stórum og litlum málaflokkum, sagði ríkisstjórnina í reynd ópólitíska og hefði það eina hlutverk að vera við völd og halda þeim.

Gagnrýndi hann stjórnmálamenn sem elti bara tíðarandann, en gæti ekki að sannfæringu sinni og haldi einhverri stefnu til lengri tíma. Sagði hann næstu kosningar ekki aðeins snúast um að bregðast við tímabundnum vanda, heldur hvernig fullveldi landsins og menning verði varin og hvernig landið muni þróast til allrar framtíðar. Benti hann á að mikilvægt sé öllum þjóðum að fá nýja borgara sem taki þátt í eflingu samfélagsins, en þróun undanfarinna missera sé fram úr öllu hófi og miklu meira en nokkurt samfélag ráði við. Sagði hann Íslendinga verða komna í minnihluta í landinu að fimmtán árum liðnum, verði ekkert að gert. Innviðir þoli þetta ekki og allir tapi, líka þeir sem hingað koma.

„Miðflokkurinn mun verja Ísland. Hann mun verja Ísland allt, alltaf,“ sagði Sigmundur Davíð ennfremur í ræðu sinni.