Innan Sjálfstæðisflokksins er unnið út frá þeim möguleika að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ætli sér miklar breytingar á stjórnkerfi fiskveiða. Óttast þingmenn flokksins, sem Viljinn hefur rætt við, að ætlun ráðherrans sé að endurtaka leikinn frá í hvalveiðimálinu og keyra í gegn breytingar í andstöðu við samstarfsflokkana í ríkisstjórn og stilla þeim þannig upp við vegg.
„Störukeppnin mikla heldur áfram. Svandís ætlar að kanna hversu langt hún getur gengið,“ segir heimildamaður Viljans sem þekkir vel til innan Sjálfstæðisflokksins. Segir hann að grein Svandísar í Morgunblaðinu í dag og skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar, sem ráðuneyti hennar lét gera vegna stefnumótarverkefninsins Auðlindin okkar, megi túlka sem ákveðinn upptakt í þessum efnum. Sú könnun leiddi í ljós að Íslendingar eru flestir ósáttir við fiskveiðistjórnunarkerfið, telja íslenskan sjávarútveg spilltan og skapi verðmæti fyrir of fáa, þótt meirihluti landsmanna talji fiskveiðar jafn mikilvægar fyrir efnahag landsins og áður fyrr.
Aðeins tæplega fjórðungur landsmanna kveðst mjög- eða frekar sátt með fiskveiðistjórnunarkerfið hér á landi en 56,6% hennar er mjög- eða frekar ósátt með kerfið. Flestir þeirra sem eru mjög ósáttir búa í höfuðborginni, en flestir þeirra sem voru jákvæðir gagnvart kvótakerfinu, voru á Norðurlandi vestra, eða tæp fimmtán prósent.
Í grein sinni í Morgunblaðinu segir Svandís:
„Það er staðreynd að aukið gagnsæi hefur jákvæð áhrif á ýmsa þætti viðskiptalífs. Bæði eykur það líkur á að fyrirtæki sýni ábyrgð og dregur úr líkum á að farið sé á svig við reglur. Þá er aukið gagnsæi lykilatriði í því að bæta stjórnunarhætti þar sem að nálgast má upplýsingar um alla þá þætti er máli skipta.“
Hún bætir því við, að það sé óásættanleg staða fyrir stjórnvöld að ein mikilvægasta atvinnugrein landsins sé talin spillt af stórum hluta almennings en staðan sé ekki síður alvarleg fyrir greinina sjálfa.