Vísbendingar eru um að skammtímaleiga fækki íbúðum sem eru til langtímanota þar sem fjöldi heimagistingaleyfa hefur vaxið mikið á þessu ári, að því er lesa má út úr nýjum tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir nóvember. Þar má einnig merkja að þrátt fyrir háa vexti og þrengri lánþegaskilyrði voru aukin viðskipti með íbúðir en 784 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði voru gerðir í september og voru þeir 110 fleiri en í ágústmánuði. Rekja má fjölgun þeirra til fjölgunar kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu.
Svo virðist sem ungir kaupendur og sala á litlum íbúðum virðast hafa mest áhrif á fjölgunina og er úrræði stjórnvalda með svonefndum hlutdeildarlánum nærtækasta skýringin á þessari þróun.
Þrátt fyrir þetta heldur framboð íbúða áfram að aukast og eru nú um 3.500 íbúðir til sölu á landinu öllu þar af rúmlega 2.200 á höfuðborgarsvæðinu. Um helmingur íbúða til sölu í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi eru nýjar íbúðir.
Uppgreiðslur óverðtryggðra lána aukast mikið milli mánaða og eru nú um tvöfalt meiri en uppgreiðslur verðtryggðra lána voru mestar eftir vaxtalækkanir í heimsfaraldrinum.
Enn hægir á framkvæmdum og leiðir það til þess að fleiri íbúðir teljast nú í byggingu og eru flestar þær íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru tæplega fjögur þúsund íbúðir á sama framvindustigi og þær voru í mars samkvæmt septembertalningu HMS á fjölda íbúða í byggingu.
Meira jafnvægi að komast á fasteignamarkaðinn
„Merki eru um að meira jafnvægi sé að komast á fasteignamarkaðinn. Fleiri íbúðir hafa verið teknar úr sölu síðustu tvo mánuði en síðasta ár þar á undan. Samkvæmt skammtímavísi hagdeildar voru 668 fasteignir teknar úr sölu á höfuðborgarsvæðinu í október sem er lítils háttar samdráttur frá því sem var í september þegar 717 fasteignir voru teknar úr sölu.
Eins og fram kom í síðustu mánaðarskýrslu hagdeildar HMS fylgjast tölur um fjölda íbúða sem teknar eru úr birtingu af auglýsingasíðum fasteigna gjarnan að við fjölda kaupsamninga næstu mánuði þar á eftir vegna þess tíma sem tekur að ganga frá kaupsamningi og þinglýsa.
Miðað við þann fjölda íbúða sem teknar voru úr birtingu á fasteignir.is má því búast við að fjöldi viðskipta í október verði svipaður því sem var í septembermánuði. Sé auglýsing tekin úr birtingu merkir það yfirleitt að viðkomandi íbúð sé komin í söluferli, en einnig getur það verið vegna þess að eigandi íbúðar hættir við að selja hana,“ segir á vef HMS.