Skattgreiðendur manna nú fremstu víglínu í útlánatöpum

Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur hefur verið skipaður nýr seðlabankastjóri.

„Íslenska ríkið er nú eigandi að Landsbanka og Íslandsbanka. Alls eru um 412 milljarðar bókfærðir sem eigið fé í þessum tveim bönkum. Í ríkisreikningi er þessi eign færð á 80% bókfærðu verði – eða um 330 milljarða. Þessu til viðbótar rekur ríkisvaldið þrjá lánasjóði – það er Íbúðalánasjóð, Lánasjóð Íslenskra námsmanna og Byggðastofnun. Alls eru um 120 milljarðar bókfærðir sem eigið fé hjá þessum þremur sjóðum. Fjármögnun þessara þriggja sjóða hefur verið með ríkisábyrgð sem nemur alls 857 milljörðum króna – hér vegur Íbúðalánasjóður þyngst með 785 milljarða ábyrgð. Ef þetta er allt tekið saman er ríkið alls með 1.389 milljarða í húfi í lánastarfsemi hérlendis. Það eru um 50% af landsframleiðslu.“

Þetta segir dr. Ásgeir Jónsson, forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands. Hann telur of áhættusamt að ríkið sé svo stór þátttakandi í samkeppnisrekstri, sem þar að auki sé áhættusamur.

„Sú röksemd heyrist oft að bankarnir séu gullgæsir sem ríkið geti ekki sleppt frá sér. Hins vegar er hættulegt að yfirfæra sérstakar aðstæður í fortíðinni yfir á framtíðina. Nú þegar er grunnrekstur bankanna í járnum vegna mikils kostnaðar og aukinnar samkeppni utanlands sem innan, jafnframt því sem ýmsar séríslenskar kvaðir gera þeim óhægt fyrir. 

Enginn ætti heldur að velkjast í vafa um að sá starfi að lána út fjármagn er gríðarlega áhættusamur – þar er aldrei á vísan að róa. Nú eru skattgreiðendur að manna fremstu víglínu þegar kemur að útlánatöpum – s.s. þegar íslenska hagkerfið fer í kreppu. Það getur ekki talist skynsemi. Ef þessum peningum verður einhvern veginn beitt til þess að niðurgreiða fjármálaþjónustu á samkeppnismarkaði, er það ekki aðeins brot á samkeppnislögum heldur einnig óábyrg notkun á almannafé.

Það þjóðarfé sem nú er bundið í Íslandsbanka og Landsbanka væri því mun betur varið í raunverulega samfélagslega innviði – skóla, sjúkrahús, vegi og fleira sem sár þörf er fyrir. Þannig skiluðu þeir þjóðinni mun meiri hagrænum ábata en sem áhættufjármagn á fjármálamarkaði – eins og nú er raunin,“ segir Ásgeir.