Söguleg endurkoma: Jón Ásgeir vill komast í stjórn Haga

Jón Ásgeir Jóhannesson.

Sjö bjóða sig fram til fimm manna stjórnar Haga á hluthafafundi sem haldinn verður á Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2 í Reykjavík, föstudaginn 18. janúar næstkomandi kl. 09:00.

Kristín Friðgeirsdóttir, stjórnarformaður, og Sigurður Arnar Sigurðsson, varaformaður stjórnar, gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Hins vegar býður Jón Ásgeir Jóhannesson, sem stofnaði Bónus, sem nú er hluti af Högum með föður sínum, sig fram í stjórnina.

Hann er þó ekki meðal þeirra fimm sem hlotið hafa náð tilnefninganefndar félagsins, að því er vefur Viðskiptablaðsins greinir frá.

Frá því var skýrt á dögunum hér á Viljanum, að Jón Ásgeir sé laus allra mála hjá ákæruvaldinu og Skattrannsóknarstjóra með sýknudómi Landsréttar í Aurum-málinu. Lýsti hann því að hafa legið undir grun, sætt ákærum eða verið sakborningur í dómsmálum við ríkið samfellt í 5.992 daga.

Hefur væntanlega töluvert fylgi

„Ég á þá von að íslensk stjórnvöld dragi lærdóm af þessari aðför gegn mér og skikki rannsóknarlögreglu og saksóknara til að starfa eftir þeirri grundvallarreglu réttarríkisins að rannsaka mál jafnt til sýknu og sektar,” sagði Jón Ásgeir.

Búast má við því að Jón Ásgeir hafi töluvert fylgi meðal hluthafa, þrátt fyrir niðurstöðu tilnefningarnefndarinnar. Millum hans og Þorsteins Más Baldvinssonar í Samherja hefur til dæmis löngum verið kært, en Samherji er stór hluthafi í Högum.

Jón Ásgeir og eiginkona hans, Ingibjörg Pálmadóttir, aðaleigandi Fréttablaðsins, eru stórir hluthafar í Högum og hafa bætt nokkuð við hlut sinn undanfarin misseri.

Bæði tengjast auðvitað fyrirtækjum Haga með órjúfanlegum hætti; Jón Ásgeir sem annar stofnenda Bónus og Ingibjörg sem dóttir Pálma heitins í Hagkaup.

Er því engum vafa undirorpið, að framboð Jóns Ásgeirs nú sætir miklum tíðindum og markar endurkomu hans inn í íslenskt viðskiptalíf.

„Jón Ásgeir hefði aldrei boðið sig fram, nema vita að hann njóti góðs stuðnings,“ segir heimildarmaður Viljans, sem þekkir vel til í viðskiptalífinu. Sá bætti við, að fáir geti andmælt því að þekking Jóns Ásgeirs á verslunarrekstri eigi sér fáa líka, ef nokkra, hér á landi.

Eftirtaldir aðilar hafa gefið kost á sér til setu í stjórn félagsins:

  • Davíð Harðarson, fjármálastjóri Nordic Visitor
  • Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Slippsins Akureyri
  • Erna Gísladóttir, forstjóri og eigandi BL ehf.
  • Jón Ásgeir Jóhannesson, fjárfestir
  • Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands
  • Kristján Óli Níels Sigmundsson, bifreiðastjóri og fjárfestir
  • Stefán Árni Auðólfsson, lögmaður hjá LMB lögmönnum slf.

Samkvæmt samþykktum félagsins skal stjórn skipuð fimm mönnum. Tilnefningarnefnd hefur farið yfir þau framboð sem bárust innan tiltekins frests og leggur hún til að Davíð Harðarson, Eiríkur S. Jóhannsson, Erna Gísladóttir, Katrín Olga Jóhannesdóttir og Stefán Árni Auðólfsson verði kosin í stjórn félagsins.