Sprengja inn í stjórnarsamstarfið: Bjarni var vanhæfur í sölunni á Íslandsbanka


„Í ljósi þess að einkahlutafélag föður fjármála- og efnahagsráðherra var á meðal kaupenda að 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka sem seldur var í mars 2022 brast hann hæfi þegar hann samþykkti tillögu Bankasýslunnar um söluna. Þetta er niðurstaða umboðsmanns Alþingis í áliti hans 5. október 2023.

Þannig hljómar úrskurður Umboðsmanns Alþingis um söluferlið á Íslandsbanka og hlut fjármálaráðherrans Bjarna Benediktssonar sem bar ábyrgð á henni og fer með eignarhluti ríkisins í fyrirtækjum og stofnunum hins opinbera.

„Að mati umboðsmanns getur það ekki haggað niðurstöðunni þótt ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til að draga í efa staðhæfingu ráðherra um að honum hafi á þeim tíma verið ókunnugt um þátttöku félagsins. Þá geti það heldur ekki ráðið úrslitum þótt hætta á því að ómálefnaleg sjónarmið hefðu áhrif á afstöðu ráðherra væri minni en ella sökum þess hvernig sölumeðferðinni var háttað, þáttur félagsins í heildarsölunni óverulegur og ganga verði út frá því að það hafi setið við sama borð og sambærilegir bjóðendur þegar Bankasýslan tók afstöðu til einstakra tilboða.

Umboðsmaður telur sig ekki hafa forsendur til að leggja mat á þá staðhæfingu ráðherra að óraunhæft hefði verið að skoða tengsl hans við einstaka bjóðendur með hliðsjón af því hvernig sölunni var fyrir komið. Í því sambandi bendir hann hins vegar á mikilvægi þess að undirbúningi mála sé hagað þannig að framkvæmd þeirra samrýmist lögum. Telji stjórnvöld rök standa  til þess að haga beri meðferð máls á þann hátt að reglur um sérstakt hæfi eigi ekki við um tiltekin atriði beri að leita viðeigandi leiða í því sambandi. Ráðherra geti t.a.m. lagt fram frumvarp til lagabreytinga í þessu skyni og sé það þá Alþingis að meta hvort tilteknar aðstæður réttlæti að tilteknir eða allir þættir málsmeðferðar séu undanskildir reglum um sérstakt hæfi.

Umboðsmaður telur að það hefði verið í betra samræmi við upplýsingalög og vandaða stjórnsýsluhætti að afstaða til þess hvernig reglur um sérstakt hæfi horfðu við sölunni hefði komið fram í skriflegum gögnum við undirbúning málsins. Þannig hefði m.a. Alþingi gefist kostur á að gera athugasemdir við þetta atriði. Annmarkar að þessu leyti hafi skapað hættu á að ákvörðun ráðherra um að samþykkja tillögu Bankasýslunnar um söluna samrýmdist ekki reglum um sérstakt hæfi og þá með þeim afleiðingum að grafið væri undan trausti almennings á þessari ráðstöfun ríkisins. Er í því tilliti vísað til almenns tilgangs hæfisreglna og þeirra markmiða sem Alþingi hefur sérstaklega stefnt að með löggjöf á þessu sviði.

Það er álit umboðsmanns að stjórnsýsla ráðherra við undirbúning sölumeðferðarinnar hafi ekki verið í nægilega góðu samræmi við stjórnunar- og eftirlitsskyldu hans gagnvart Bankasýslu ríkisins m.t.t. þess hvernig reglur um sérstakt hæfi horfðu við. Í þessu sambandi tekur umboðsmaður fram að þáttur Bankasýslunnar, sem annaðist undirbúning sölunnar, hafi ekki verið til sjálfstæðrar skoðunar.

Umboðsmaður vísar til þess að ráðherra hafi upplýst að unnið sé að að nýju regluverki um ráðstöfun ríkisins á hlutum í fjármálafyrirtækjum og í þeirri vinnu sé m.a. til skoðunar hvernig aðkomu ráðherra verði best háttað við ráðstöfun á borð við þá sem hér um ræðir og þá að fenginni reynslu og þeim lærdómi sem dreginn verði af henni. Umboðsmaður mælist til þess að ráðherra hafi álitið í huga við þessa endurskoðun sem og frekari sölu hluta í fjármálafyrirtækjum. Þá er áréttað að með umfjöllun sinni hafi umboðsmaður ekki tekið afstöðu til hugsanlegra einkaréttarlegra afleiðinga þeirra lagalegu annmarka sem um er fjallað,“ segir umboðsmaður ennfremur í áliti sínu.

Álit umboðsmanns í máli nr. F132/2023

Bréf fjármála- og efnahagsráðuneytis 7. okt. 2023