Stærsta jarðorkuver heims er í Ölfusi en nýtist heimabyggð ekkert: Títan á að breyta því

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

Sveitarfélagið Ölfus stofnaði í gær félagið Orkufélagið Títan ehf. Það er rekstrarfélag og er tilgangur þess orkurannsóknir, orkuvinnsla og rekstur hitaveitu í þágu Sveitarfélagsins Ölfus og annarra sveitarfélaga og hagaðila á áhrifasvæði þess og rekstur tengdra mannvirkja.

Í stjórn félagsins náðu kjöri: Grétar Ingi Erlendsson sem jafnframt var kosinn formaður stjórnar og meðstjórnendur Sandra Dís Hafþórsdóttir, Kristín Magnúsdóttir. Í varastjórn voru kosin Hrönn Guðmundsdóttir og Gestur Þór Kristjánsson. Jafnframt var Elliði Vignisson ráðinn framkvæmdastjóri með prókúru.

Elliði Vignisson, framkvæmdastjóri Títan:

„Aðgengi að orku er að verða ein helsta ógn verðmætasköpunar á Íslandi og mikilvægt að allir leggist á eitt til að hreyfa við málum. Það verður ekki við það búið að hér takmarkist verðmætasköpun af því að ekki sé nægt aðgengi að orku.Sveitarfélagið Ölfus er eitt orkuríkasta svæði á Íslandi með fjölmarga kosti til nýtingar. Við höfum sótt fast fram á forsendum framleiðslu á umhverfisvænum matvælum og fl. og berum því ábyrgð á því að innviðir eins og aðgengi að orku verði tryggðir. Hlutverk félagsins verður fyrst og fremst að koma fram í þessum málum fyrir hönd Sveitarfélagsins Ölfus og þá eftir atvikum í samstarfi við orkufyrirtæki með aðgengi að þekkingu, tækjum og fjármagni. Þannig er það ekki séð sem hlutverk félagsins að standa í áhætturekstri heldur að leita samstarfs sem tryggir íbúum verðmætasköpun og velferð.“

Grétar Ingi Erlendsson, stjórnarformaður:

„Með stofnun Títan hyggjumst við beita okkur enn fastar en áður fyrir nýtingu orkukosta innan Sveitarfélagsins Ölfus í þeim tilgangi að tryggja íbúum og fyrirtækjum aðgengi að orku. Í þessu samhengi horfum við meðal annars til nýtingar á Ölkelduhálsi með möguleika á skáborun undir Reykjadal, Grændal og Gufudal, þá er þekkt aðgengi að orku í Ölfusdal, við Hlíðardalsskóla og víðar innan Sveitarfélagsins. Við höfum á seinustu árum verið of miklir áhorfendur í orkumálum og til að mynda séð sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu byggja upp stærsta jarðorkuver í heimi upp hér í Ölfusinu. Svo magnað sem það er þá nýtist þessi mikla orka sem þar er unnin ekki fyrir fyrirtæki hér á svæðinu heldur er hver einasti dropi nýttur á höfuðborgarsvæðinu auk smáræðis innan lóðar þeirra á Hellisheiði. Þessu ætlum við að breyta með því að stíga sjálf fram í þessum málum.“