Það að við séum ekki öll eins, hefur hugbúnaðarþróunarfyrirtæki í New York gert að forskoti í samkeppni, en 75% starfsmanna fyrirtækisins eru á einhverfurófinu. Frá því sagði Breska ríkisútvarpið í umfjöllun.
Rajesh Anandan stofnaði fyrirtækið Ultranauts ásamt félaga sínum Art Shechtman, fyrir fimm árum, með það markmið að sýna að fjölbreytileiki í heilaþroska starfsmanna geti skilað fyrirtækjum forskoti í samkeppni, en fyrirtækinu hefur á þessum tíma tekist að sýna fram á það.
Glötuð tækifæri og dýrmætir hæfileikar fara forgörðum
„Það er gríðarlegur fjöldi fólks á einhverfurófinu sem litið hefur verið framhjá fyrir misskilning. Fólk sem hefur ekki fengið tækifæri til að blómstra í starfi, vegna ferla og starfshátta sem eru ekki sérstaklega árangursríkir og jafnvel skaðlegir þeim sem eru öðruvísi,“ segir Anandan. Ekki sé allt fengið með að mæla hæfileika og horfur fólks í starfi eftir mælikvörðum um félagsfærni og metnaði í að vinna sig upp – enda eigi það ekki alltaf við.
Vaxandi eftirspurn sé eftir starfsfólki á einhverfurófinu, en þau standa sig oft með afbrigðum vel, t.d. í störfum sem krefjast skilnings á kerfum, endurtekninga, svörunar og nákvæmni, eins og til að mynda við prófanir á hugbúnaði – en eiga oft í erfiðleikum í vinnuumhverfi þar sem eru opin rými, hávaði og mikil persónuleg samskipti við aðra.
Ráðningarferli geta líkað verið erfið fyrir einhverfa, þar sem þau eiga erfitt að átta sig á hvernig er best að svara almennum eða opnum spurningum eins og: „Hvar sérðu sjálfan þig eftir fimm ár“, og fleiru í þeim dúr.
Fáir fá að vinna en flesta langar til þess
Bresk rannsókn á 2.000 einstaklingum með einhverfu sýndi að aðeins 16% þeirra voru í fullu starfi, þrátt fyrir að 77% þeirra vildu vera að vinna. Fólk með aðra fjölbreytileika í heilastarfsemi getur líka hentað betur en aðrir í mörg störf, til dæmis fólk með ADHD eða lesblindu, svo eitthvað sé nefnt.
Fyrirtækið hefur þróað hlutlægara mat á tæknilegri kunnáttu fólks við ráðningar og búið til sveigjanlegri vinnustundir og starfsumhverfi til að henta þörfum mismunandi starfsmanna, ásamt möguleikanum á að vinna að heiman og notast við skipulags- og spjallforrit í samskiptum. Aðferðin þykir nýtast vel, og jafnvel líka fyrir starfsfólk með týpíska heilastarfsemi.
Margir af mestu snillingum sögunnar eru taldir hafa verið á einhverfurófinu og hér eru nokkur þeirra.
- Dan Aykroyd – Grínleikari
- Hans Christian Andersen – Barnabókahöfundur
- Susan Boyle – Söngkona
- Tim Burton – Kvikmyndaleikstjóri
- Lewis Carroll – Höfundur að Lísu í Undralandi
- Charles Darwin – Vísindamaður
- Emily Dickinson – Ljóðskáld
- Albert Einstein – Stærðfræðingur
- Bobby Fischer – Stórmeistari í skák
- Bill Gates – Meðstofnandi og eigandi Microsoft
- Daryl Hannah – Leikkona
- Thomas Jefferson – Stjórnmálamaður
- Steve Jobs – Meðstofnandi Apple
- James Joyce – Rithöfundur
- Stanley Kubrick – Kvikmyndaleikstjóri
- Michelangelo – Listamaður
- Wolfgang Amadeus Mozart – Tónskáld
- Sir Isaac Newton – Eðlisfræðingur
- Jerry Seinfeld – Grínisti
- Satoshi Tajiri – Höfundur Pokémon
- Nikola Tesla – Uppfinningamaður
- Andy Warhol – Listamaður
- Ludwig Wittgenstein – Heimspekingur