Sjávarútvegurinn hefur greitt ríflega tíu milljarða króna í kolefnisgjald frá því það var fyrst lagt á árið 2010, og til stendur að hækka gjaldið um tíu prósent um næstu áramót. Þar með mun það hafa fjórfaldast frá byrjun. Frá þessu greindi mbl.is í gær.
Jón Ólafur Halldórsson, framkvæmdastjóri Olís og formaður Samtaka verslunar og þjónustu, sagði í viðtali í sjónvarpsþætti á Hringbraut þann 21. ágúst sl. að viðskiptavinir Olís greiði um þrjá milljarða króna í kolefnisskatt, og að þessi skattur sé í kringum níu til tíu milljarðar króna árlega hjá olíugeiranum eins og hann leggur sig.
Óljóst í hvað þessum sköttum er varið
„Hins vegar sjáum við ekki hvernig þessum grænum sköttum er varið í þessi grænu verkefni.“
Hann gagnrýndi kolefnisgjaldið jafnframt í grein sem hann skrifaði í Viðskiptablaðið þann 7. maí 2018 þar sem hann sagði m.a.:
„Kolefnisgjald er svo til nýr skattur á Íslandi sem lagður er á fljótandi jarðefnaeldsneyti, s.s. gas- og dísilolíu, bensín, og brennsluolíu. Skattheimta þessi er stefnulaus, ósanngjörn, ótímabær og allt of mikil. Gjaldið hefur hækkað um tugi prósenta undan farin ár með neikvæðum afleiðingum fyrir heimilin og atvinnulífið í landinu,“ og benti á að gjaldið og hækkanir á því hefðu aukið skuldir heimlanna um mörg hundruð milljónir króna.
Bitna á tekjulágum, landbyggðinni og samkeppnishæfni Íslands
Hann benti á að rafvæðing almennra ökutækja sé heldur ekki raunhæfur kostur í dag, þar sem bæði tæknin og innviðauppbygging sé of skammt á veg komin. Skatturinn bitnaði þannig verst á þeim tekjulægri og íbúum landsbyggðarinnar.
Samkeppnishæfni sjávarútvegsfyrirtækja hér á landi hafi minnkað með tilkomu kolefnisgjalda, og Ísland sé eina ríkið í Evrópu þar sem fiskiskipaflotinn nýtur engrar undanþágu eða styrkja hvað varðar eldsneytisskatta.
Hvert er stefnt með þessum aðgerðum?
Fyrir liggur að vísindasamfélagið er langt frá því að vera sammála um það hvaða áhrif kolefnislosun hefur á umhverfið – eða hver möguleg áhrif af henni gætu orðið. Ekki stendur til að draga úr heildarlosun í heiminum, samanber áætlanir Kína og Indlands, langsamlega fjölmennustu ríkja heims – og aðrir munu bara kaupa meiri kolefniskvóta. Fyrir liggur að um milljarður mannkyns býr enn við rafmagnsleysi, og að jarðefnaeldsneyti drífur 80% hagkerfanna á jörðinni – því verður ekki breytt í bráð. Maður hlýtur því að spyrja sig á hvaða vegferð íslensk stjórnvöld eru með þessari stjórnlausu og skaðlegu skattheimtu, í vægast sagt óljósum tilgangi.