Stóraukinn áhugi á vindorku: Norðmenn vilja reisa hér vindmyllugarða

Danir þurfa ekki einu sinni að kveikja á vindmyllunum til að græða á þeim.

Norska vindorkufyrirtækið Zephyr hefur stofnað dótturfyrirtæki á Íslandi; Zephyr Iceland. Markmiðið er að reisa hér vindmyllur og vindmyllugarða og bjóða umhverfisvæna raforku á hagkvæmu og samkeppnishæfu verði. Í þessu skyni hyggst fyrirtækið á næstunni m.a. verja verulegum fjármunum til rannsókna á vindaðstæðum á Íslandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu nú í morgun. Zephyr er í eigu þriggja norskra vatnsaflsfyrirtækja. Þau eru Glitre Energi, Vardar og Østfold Energi. Þessi þrjú fyrirtæki eru öll í eigu norskra sveitarfélaga og fylkja. Framkvæmdastjóri Zephyr á Íslandi er Ketill Sigurjónsson, sem jafnframt er hluthafi í fyrirtækinu.

Zephyr hefur verið leiðandi í nýtingu vindorku í Noregi og hefur þegar reist meira en 300 MW af vindafli þar í landi. Sú fjárfesting jafngildir meira en 35 milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækið er nú að reisa þar nýjan 200 MW vindmyllugarð og verður því senn með um 500 MW af vindafli í rekstri. Það jafngildir raforkunotkun um 75 þúsund norskra heimila.

Zephyr býr yfir mikilli tæknilegri þekkingu og víðtækri reynslu á öllum þáttum vindorkuverkefna og nýtur góðra viðskiptasambanda við ýmsa sterka fjárfesta og fyrirtæki. Meðal nokkurra helstu viðskiptavina Zephyr í verkefnum fyrirtækisins fram til þessa eru álframleiðandinn Alcoa, fjárfestingafyrirtækið Black Rock og tæknirisinn Google.

Jafnvel betri vindaðstæður en í Noregi

„Ísland býr yfir geysilega góðum vindaðstæðum og jafnvel enn betri en eru í Noregi. Ég er afar ánægður með þá ákvörðun stjórnar Zephyr að Ísland verði fyrsti markaður okkar utan Noregs,“ segir Olav Rommetveit, forstjóri norska Zephyr og stjórnarformaður Zephyr á Íslandi.

„Vindurinn á Íslandi, ásamt sveigjanleikanum sem íslenska vatnsaflskerfið býr yfir, skapar Íslandi óvenju gott tækifæri til að nýta vindorku með ennþá hagkvæmari hætti en í flestum öðrum löndum. Samhliða því að íslensk vindorka getur aukið hagsæld á Íslandi, munu verkefni Zephyr Iceland skapa nýjar tekjur fyrir bæði landeigendur og sveitarfélög,“ bætir hann við.

Frá undirritun samninga um Zephyr Iceland. Á myndinni eru (f.v.): Morten de la Forest frá Zephyr, Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr Iceland og Olav Rommetveit, forstjóri Zephyr AS í Noregi. Á myndinni er einnig Gunnar Sturluson, hrl hjá Logos, en Logos var Zephyr AS til ráðgjafar við stofnun Zephyr Iceland.

Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr á Íslandi, tekur undir þetta:

„Á síðustu árum hefur vindorka orðið sífellt ódýrari og hagkvæmari. Það er því sannarlega tímabært að byrja að nýta vindinn hér á Íslandi til raforkuframleiðslu og þannig stuðla að enn sterkari samkeppnishæfni Íslands. Um leið er afar hvetjandi að hafa fengið svo öflugt og reynslumikið fyrirtæki til samstarfs sem norska Zephyr er. Rétt eins og í verkefnum Zep- hyr í Noregi, mun Zephyr Iceland leggja höfuðáherslu á vandaðan undirbúning verkefna og góða upplýsingamiðlun, enda er mikilvægt að breið sátt ríki um uppbyggingu af þessu tagi. Framtíð Íslands er vindasöm og björt í senn,“ segir hann.