„Í íslenskri stjórnmálaumræðu skortir jafnan verulega á framtíðarsýn og menn bregða gjarnan fyrir sig innantómum orðaleppum. Í skýrslu nefndar sem fjallaði um endurskoðun laga um eignar- og afnotarétt fasteigna árið 2014 sagði að erlend fjárfesting yki „hagsæld og fjölbreytileika í íslensku samfélagi og atvinnulífi“. Þá sagði nefndin að farsælast væri „að auka frjálsræði á þessu sviði“. Margir halda því fram að „aukið frjálsræði“ og „aukin erlend fjárfesting“ séu alltaf lausnarorðin en slík afstaða getur beinlínis verið einfeldningsleg ef betur er að gáð. Valdið leitar þangað sem auðurinn er og þess vegna er sæmileg eignadreifing forsenda valddreifingar. Þá þarf ekki að fjölyrða um gildi þess fyrir samfélag að helstu eignir þess séu í höndum heimamanna — og í slíkri fullyrðingu þarf vitaskuld ekki að felast almenn andstaða við erlenda fjárfestingu. Höfum líka hugfast að þó svo að jarðnæði hér á landi sé verðlítið í erlendum samanburði er um að ræða takmarkaða auðlind.“
Þetta segir Björn Jón Bragason, lög- og sagnfræðingur, í athyglisverðri ádrepu á Eyjunni þar sem hann gagnrýnir undirlægjuhátt gagnvart erlendum auðmönnum hér á landi. Segir hann að lítið fari hér á landi fyrir umræðum um kaup útlendinga á fasteignum og þeim séu í reynd litlar takmarkanir settar.
„Þannig getur ráðherra veitt undanþágu fyrir eignarhaldi erlendra aðila á meiru en 1.500 hekturum en þó skal samþykki „að jafnaði ekki veitt ef viðtakandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fasteign eða fasteignir sem eru samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð, nema umsækjandi sýni fram á að hann hafi sérstaka þörf fyrir meira landrými vegna fyrirhugaðra nota fasteignar,“ eins og það er orðað. Tíu þúsund hektarar er ekkert smáræði en til að setja það í samhengi samsvarar það ríflega átta Skálholtsjörðum.
Engin skylda er gerð til búsetu landeiganda á Íslandi og umræddar takmarkanir stóðu til að mynda ekki í vegi fyrir því að félag sem nefnist Power Minerals Iceland keypti Hjörleifshöfða nýverið fyrir 489 milljónir króna en umrætt landsvæði er 11.500 hektarar að stærð. Félagið sem um ræðir er að fullu í eigu þýska fyrirtækisins STEAG Beteilungsgesellschaft mbH í Essen.
Lög og reglugerðir komu heldur ekki í veg fyrir því að Svisslendingurinn Rudolf Walter Lamprecht og fleiri útlendingar keyptu fasteignir í Mýrdal og nágrenni, samtals vel á annan tug þúsunda hektara,“ bendir Björn Jón ennfremur á.
Hann gerir svo gríðarleg jarðakaup breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe hér á landi að umtalsefni, en sá hefur keypt á undanförnum árum 39 bújarðir fyrir milljarða króna með tilheyrandi laxveiðiréttindum. „Í frétt Ríkisútvarpsins 2019 kom fram að Ratcliffe ætti nú land við átta laxveiðiár á norðausturhorni landsins: Hofsá, Sunnudalsá, Selá, Miðfjarðará, Hafralónsá, Kverká og Vesturdalsá. Í síðastnefndu ánni fær víst enginn að veiða nema Ratcliffe einn.“
Loks segir Björn Jón:
„Æði oft vakna menn við vondan draum hér á landi — slíkt er landlægt fyrirhyggjuleysið — og nú mögulega þá martröð að heilu héruðin verði orðin einkaeign erlendra auðkýfinga. Við blasir að setja þarf miklu strangari skilyrði fyrir hámarkseign hvers og eins landeiganda (tíu þúsund hektarar er alltof mikið) og sömuleiðis afnema hinar rúmu heimildir ráðherra til að veita undanþágur. Þá væri líklega rétt að fara leið Dana: að engum verði heimilt að eiga fasteign hér á landi nema gjalda skatt til ríkissjóðs. Að sama skapi þarf að gera kröfu um skýrt eignarhald; erlendir aðilar geti til að mynda ekki skýlt sig bakvið félög — eigi þeir fasteign eða hlut í fasteign hér á landi verði skattaleg heimilisfesti þeirra að vera hér.“
Að lokum setur hann fram þessa spurningu: „Að mínu viti er þetta einfalt sanngirnismál en segir mér samt hugur að ráðamenn muni enn sem fyrr beygja sig í duftið fyrir hinum moldríku útlendingum. Samt er aldrei að vita nema þjóðin vakni. … En spurningin nú er hversu margar sýslur landsins verða orðnar einkalendur erlendra peningamanna áður en stungið verður niður fæti og raunveruleg takmörk sett á eignarhald útlendinga að landi.“