Eftirminnilegast í íslensku viðskiptalífi á árinu sem er að líða að mati Hermanns Guðmundssonar athafnamanns, eru kaup N1 (þar sem hann er fv. forstjóri) á Festi, kaup Haga á Olís, kaup Brim á ráðandi hlut í HB Granda og barátta WOW fyrir lengra lífi.
Hermann segist í samtali við Viljann telja að Bláa lónið og Marel hafi skarað framúr á árinu þegar kemur að fyrirtækjum hér á landi.
Hann telur að einstaklingar ársins í viðskiptalífinu séu þeir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Aðspurður hvort hætta sé á verkföllum á vinnumarkaði eftir áramót, segir Hermann svo ekki vera:
„Mér finnast líkur á verkföllum ekki miklar, staða vinnandi fólks á Íslandi er almennt góð og hefur batnað jafnt og þétt. Sá hluti vinnandi fólks sem ekki hefur það ásættanlegt er ekki það fjölmennur að þar sé ekki hægt að bæta úr svo framarlega sem aðrir hópar sýni því skilning.“
En hverju spáir hann fyrir um árið 2019?
„Ég á von á að árið verði að einhverju leyti ár sem einkennist af tiltekt og hagræðingaraðgerðum á vinnumarkaði. Launahlutföll eru almennt að verða of há, margar sameiningar kalla á fækkun starfa, aukin sjálfvirkni er þegar farin að fækka störfum og síðan er afkoma margra fyrirtækja of slök sem aftur þýðir fækkun starfa til að lækka kostnað,“ segir Hermann Guðmundsson.