Tilraun gerð með aukinn fyrirsjáanleika: Litakóði ræður frá 1. maí

Þann 1. maí nk. verða tekin varfærin skref til afléttingar sóttvarnaraðgerða á landamærum sem taka munu mið af ástandi faraldursins á brottfararstað komufarþega. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Frá og með 1. maí verður byggt á reglulega uppfærðu áhættumati Sóttvarnarstofnunar Evrópu og ríki flokkuð í græn, appelsínugul, rauð og grá eftir stöðu faraldursins.

Með þessu bregst ríkisstjórnin við kalli ferðaþjónustunnar eftir auknum fyrirsjáanleika á landamærunum, svo unnt sé að skipuleggja sölu á ferðum til landsins næsta sumar á grundvelli einhverra forsendna. Sóttvarnalæknir hefur sagt erfitt eða ómögulegt að skapa fyrirsjáanleika við ófyrirséðar aðstæður, en innan stjórnkerfisins hefur þó verið unnið að því undanfarið að skapa einhvern grundvöll til að byggja á.

Fram kemur í tilkynningu forsætisráðuneytisins í morgun, að í ljósi landfræðilegrar sérstöðu Íslands og annarra sóttvarnasjónarmiða verði harðari sóttvarnaraðgerðum beitt fyrir hvern áhættuflokk en þeim sem lögð eru til í tilmælum Evrópusambandsins, að minnsta kosti fyrst um sinn. Farþegar frá hættuminni löndum verða undanþegnir sóttkví og síðari skimun geti þeir framvísað vottorði um neikvæða niðurstöðu PCR-prófs innan tiltekins tíma.

Komufarþegar sem geta framvísað gildu vottorði sem sýnir fram á að COVID-19 sýking sé afstaðin verða áfram undanþegnir sóttvarnaaðgerðum á landamærum og það sama mun gilda um komufarþega sem geta framvísað gildu bólusetningarvottorði.  

Við skilgreiningu í áhættuflokka verður notast við sömu viðmið og lagt er til í samræmdum tilmælum Evrópusambandsins:

  • 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa
  • Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda tekinna sýna undanfarna viku
  • Sýnatökuhlutfall, þ.e. fjölda sýna sem tekin eru á hverja 100.000 íbúa undanfarna viku

Viðmið litakóðunarkerfisins eru þannig:

  • Grænn litur þýðir að nýgengi smita er undir 25 (m.v. 100.000 íbúa) og hlutfall jákvæðra sýna er undir 4%
  • Appelsínugulur litur þýðir að nýgengi er undir 50 en hlutfall jákvæðra sýna er 4% eða meira eða nýgengi er 25-250 og hlutfall jákvæðra sýna er undir 4%
  • Rauður litur á við í öðrum tilvikum
  • Grár litur þýðir að ekki liggja nægilegar upplýsingar fyrir eða tekin eru færri sýni en 300 á hverja 100.000 íbúa á viku

Þær sóttvarnareglur sem gilda munu fyrir ólíka áhættuflokka eru eftirfarandi:

LiturKomufarþegar
Græn ríki(14-daga nýgengi undir 25/100 þusund íbúa og hlutfall jákvæðra syna undir 4%)Tvöföld skimun með fimm daga sóttkví á milli. Þeir sem geta framvísað vottorði um neikvæða niðurstöðu úr fyrri skimun sem framkvæmd er á brottfararstað og uppfyllir kröfur sæti skimun á landamærum en séu undanþegnir sóttkví og síðari skimun hér á landi.Mótefnavottorð og bólusetningarvottorð tekin gild.
Appelsínugul ríki14-daga nýgengi undir 50/hlutfall jákvæðra syna >4% eða 14-daga nýgengi 25-250 og hlutfall jákvæðra syna <4%)Tvöföld skimun með fimm daga sóttkví á milli. Þeir sem geta framvísað vottorði um neikvæða niðurstöðu úr fyrri skimun sem framkvæmd er á brottfararstað og uppfyllir kröfur sæti skimun á landamærum en séu undanþegnir sóttkví og síðari skimun hér á landi.Mótefnavottorð og bólusetningarvottorð tekin gild.
Rauð og grá ríki(Önnur ríki)Tvöföld skimun með fimm daga sóttkví á milli.Mótefnavottorð og bólusetningarvottorð tekin gild.

Með því að greina svo snemma frá fyrirkomulagi sóttvarnaráðstafana á landamærum sem stefnt er að í vor er framkvæmdar- og söluaðilum gert kleift að undirbúa breytingar vel. Áhættumat litakóðunarkerfis tekur mið af óvissu um þróun faraldurs og gerir meiri fyrirsjáanleika mögulegan.  

Við undirbúning ákvörðunar um fyrirkomulag á landamærum var horft til vinnu efnahagshóps fjármála- og efnahagsráðherra, vottorðahóps heilbrigðisráðuneytis, tölfræðiteymis Háskóla Íslands um áhrif sóttvarna á landamærum, samræmdra tilmæla ESB um ferðalög, leiðbeininga sem Sóttvarnastofnun Evrópu gaf út samhliða ferðatilmælum ESB, upplýsinga um bóluefni og bólusetningar frá heilbrigðisráðuneytinu og þeirrar reynslu og tölfræðilegu innsýnar sem skimanir á íslenskum landamærum hafa veitt síðustu mánuði. 

Skýrsla um fyrirkomulag sóttvarna á landamærum.