Umhverfisráðherra: Aðgerðir gegn hamfarahlýnun – strax

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpar COP25 í Madríd. Mynd/Stjórnarráðið

„Baráttan gegn hamfarahlýnun verður að vera efst á forgangslistanum til að tryggja velferð komandi kynslóða. Það kallar á aðgerðir – strax,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindráðherra, en hann ávarpaði í dag Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25 í Madríd, fyrir Íslands hönd. Frá þessu segir á vef Stjórnarráðsins.

„Fyrst og fremst verðum við að stöðva losun. Í öðru lagi þurfum við langtímaáætlanir, m.a. um kolefnishlutleysi og í þriðja lagi að binda meira en við losum (e. net negative emissions). Við þurfum að auka umfang aðgerða sem virka.“

Velferðarsamfélag með nýjum viðmiðum um velmegun

Guðmundur Ingi lagði einnig áherslu á mælikvarða um hagsæld og lífsgæði og sagði frá áætlunum Íslands um að meta fjármálaáætlun ríkisins út frá þremur stoðum sjálfbærrar þróunar, þ.e. efnahagslegum, umhverfislegum og samfélaglegum áhrifum, í því skyni að horfa til velferðar samfélagsins í heild. Loftslagsmál væru í forgrunni þeirrar vinnu

Þannig þyrfti að breyta viðmiðum samfélaga um velmegun.

„Við verðum að horfa til velsældar frekar en neyslu. Velferðarsamfélagið krefst nýrrar hugsunar og gilda og að við forgangsröðum upp á nýtt.“