Þegar Mark Zuckerberg var 19 ára í Harvard smíðaði hann Facemash.com, vefsíðu til að bera saman og meta hversu aðlaðandi skólafélagar hans voru. Skólinn lét hann eyða henni. Fljótlega eftir það gerði hann Facebook.com, síðu þar sem notendur gátu búið til persónulegar síður (e. profiles) og átt samskipti. Facebook.com varð strax vinsæl og komst fljótt í notkun í öðrum háskólum. Þegar árið 2006 voru tíu milljón notendur á þessu nematengslaneti.
Í dag er Facebook-æskan minningin ein. Aðeins fjögur fyrirtæki á opnum hlutabréfamarkaði eru verðmætari en fyrirtæki Zuckerberg. Þetta uppátæki hans af stúdentagörðunum er nú með um tvo milljarða notenda. Fyrirtæki og stjórnmálamenn nota Facebook til að fá neytendur og kjósendur til fylgilags við hugmyndir sínar. Nú þegar samfélagsmiðillinn er orðinn fullorðinn, leitar unga fólkið annað.
Mælingar á Facebook-notkun er ekki auðveld – fyrirtækið kveðst hafa eytt tveimur milljörðum gervisíðna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. eMarketer, ráðgjafarfyrirtæki sem les útgefnar tölur Facebook saman við skoðanakannanir, fær þá niðustöðu að 16 ára Bandaríkjamenn séu ólíklegri til að nota Facebook en sextugir. Hlutfall fólks á aldrinum 12-17 sem nota Facebook amk. mánaðarlega hefur fallið úr 60% árið 2015 í 39% í dag, á meðan hlutfall fólks á aldrinum 45-64 ára er 58%. Svipaða sögu er að segja í öðrum löndum, þaðan sem áreiðanlegar tölur fást.
Ein af ástæðunum er talin vera uppreisnargirni æskunnar – fáir unglingar kæra sig um að deila samfélagsmiðli með ömmu. Önnur skýring er talin vera gerð þess efnis sem facebook býður upp á, útskýrir Mark Mahaney frá RBC bankanum. Á meðan Snapchat og Instagram, tveir nýrri samfélagsmiðlar, leyfa ungu fólki að skrá hverja stund með fílteruðum myndum og uppfærðum myndbrotum, þá leggur Facebook áherslu á fréttaveitu og skilaboð. Það er hjálplegt við að hafa uppi á gömlum vinum, en ekki til að deila myndum af morgunmatnum.
Til allrar hamingju fyrir Facebook, leyfðu samkeppnisyfirvöld kaup fyrirtækisins á Instagram árið 2012 og WhatsApp, skilaboðaforriti, árið 2014. Að Facebook Messenger meðtöldum, þá á fyrirtækið núna fjögur af fimm mest notuðu samskiptamiðlum heims, ef tölvupóstþjónustur eru frátaldar.
Heimild: The Economist