Drög að frumvörpum forsætisráðherra vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits hafa verið birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins.
Með frumvörpunum er lagt til að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið verði sameinuð í eina stofnun. Ekki eru lagðar til breytingar á þeim verkefnum sem eru á ábyrgð þessara tveggja stofnana sameiginlega samkvæmt núgildandi lögum.
Verði frumvarpið að lögum mun forsætisráðherra skipa seðlabankastjóra til fimm ára í senn, að hámarki þó tvisvar sinnum. Þá skipar forsætisráðherra þrjá varaseðlabankastjóra einnig til fimm ára í senn og að hámarki tvisvar sinnum. Einn leiðir málefni er varða peningastefnu, einn leiðir málefni er varða fjármálastöðugleika og einn leiðir málefni er varða fjármálaeftirlit. Varaseðlabankastjórar fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits eru skipaðir eftir tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra.
Rekstur og stjórnun Seðlabankans er í höndum seðlabankastjóra. Hann ber ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin. Sumar ákvarðanir eru teknar sameiginlega af seðlabankastjóra og varaseðlabankastjórum.
Ákvarðanir um beitingu tiltekinna valdheimilda bankans eru teknar af peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd. Nefndirnar eru skipaðar 5-7 fulltrúum, bæði embættismönnum Seðlabankans og utanaðkomandi sérfræðingum á viðkomandi sviði. Seðlabankastjóri er formaður allra þriggja nefnda bankans.
Varaseðlabankastjórar hafa faglega umsjón með vinnu bankans á sínum sérsviðum. Þeir bera ábyrgð á undirbúningi vinnu fyrir nefndir bankans og sitja jafnframt í einstökum nefndum bankans.
Nýtt fólk þarf að koma til eftir erfið mál að undanförnu
Með breytingum á lögum um Seðlabankann árið 2009 var horfið frá því að vera með fjölskipaða bankastjórn til þess að hafa einn seðlabankastjóra. Með breytingunum voru seðlabankastjóra því gefin aukin völd en staða aðstoðarseðlabankstjóra gerð áhrifaminni.
Í dag hvílir því mikil ábyrgð á einum seðlabankastjóra samkvæmt núgildandi lögum um Seðlabanka Íslands. En í öðrum þróuðum ríkjum tíðkast að hafa fjölskipaða bankastjórn, skipuð formanni bankastjórnar auk annarra aðstoðarseðlabankastjóra sem skipta með sér verkum innan bankans.
Viðmælendur Viljans telja ljóst, að samfara aukinni ábyrgð Seðlabankans þurfi að styrkja ábyrgðar- og stjórnendahlutverk hans. Áfram verði einn aðalseðlabankastjóri sem verði æðsti yfirmaður bankans og taki ábyrð á rekstri hans. Hins vegar eru ýmsar ákvarðanir sem til dæmis tengjast óreglubundinni hagstjórn (e. discretionary policy) sem heppilegt væri að fjölskipað stjórnvald fallaði um.
Viljinn leitaði til fjölmargra sérfróðra álitsgjafa og setti í framhaldi af því saman þennan lista um tíu kandídata sem líklegt er að geta sest í þau fjögur sæti sem skipuð verða seinna á árinu og eiga að stýra Seðlabankanum næstu árin. Álitsgjafarnir eru sammála um að nýir stjórnendur Seðlabankans verði að taka alvarlega þá hörðu gagnrýni sem bankinn hefur sætt að undanförnu; stjórnsýsla hans hefur verið í molum og hvert vandræðamálið rekið annað. Þess vegna telja margir, að best sé að nýtt fólki þarna að, en þeir fái ekki sjálfkrafa framgang sem verið hafa þarna fyrir á fleti undanfarin ár.
Listinn yfir vænlega kandídata kemur hér í stafrófsröð:
———————
Árni Páll Árnason
Lögfræðingur og fv. félagsmálaráðherra og efnahagsráðherra í kjölfar hruns og leiddi vinnu við afnám hafta og framkvæmd samtarfsins við AGS.
Lögfræðipróf HÍ 1991. Nám í Evrópurétti við Collège d’Europe í Brugge í Belgíu 1991–1992. Hdl. 1997.Lögfræðingur og fv. félagsmálaráðherra og efnahagsráðherra í kjölfar hruns og leiddi vinnu við afnám hafta og framkvæmd samtarfsins við AGS. Lögfræðipróf HÍ 1991. Nám í Evrópurétti við Collège d’Europe í Brugge í Belgíu 1991–1992. Hdl. 1997.
Dr. Ásgeir Jónsson
Skeleggur hagfræðingur sem tekið er mark á, forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands. Með djúpar sögulegar rætur í starfi fyrir verkalýðshreyfinguna og tengsl við VG (sonur Jóns Bjarnasonar fv. ráðherra). Í sérflokki þegar kemur að umfjöllun um hagfræðileg málefni á mannamáli. Núverandi forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur reyndar horn í síðu hans, bæði vegna þess að hann hefur talað tæpitungulaust um staðreyndir á vinnumarkaði en einnig vegna aðkomu hans að íslensku bankakerfi á árunum fyrir og eftir hrun, fyrst sem forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings og síðar sem aðalráðgjafi Gamma.
Dr. Gunnar Haraldsson
Fjölþætt reynsla; formaður fjármálaráðs, forstöðumaður hagfræðistofnunar HÍ, formaður stjórnar FME, hagfræðingur í forsætisráðuneytinu og ráðgjafarstörf á eigin vegum. Traust þekking, góðar gáfur og á auðvelt með samskipti. Gunnar lauk B.Sc. gráðu frá Háskóla Íslands, M.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræðum frá Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, DEA-gráðu í hagfræði, DEEQA-gráðu í stærð- og tölfræðilegri hagfræði og doktorsprófi í hagfræði frá háskólanum í Toulouse í Frakklandi árið 2006.
Dr. Gylfi Zoega, prófessor.
Einn þekktasti hagfræðingur landsins og handgenginn stjórnvöldum — skrifaði mjög góða greiningu um svigrúm til kauphækkana í sumarlok. Gylfi, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabankans, hefur verið prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 2003 en hann er einnig prófessor í hlutastarfi við Birkebeck College í London. Hann starfaði áður sem hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum og OFCE í París.
Gylfi lauk doktorsprófi í hagfræði frá Columbia háskóla í New York árið 1993.
Dr. Jón Þór Sturluson
Aðstoðarforstjóri FME. Þar sem einn þriggja nýrra bankastjóra mun sinna fjármálastöðugleika, er líklegt að hann sækist eftir stöðunni. Lauk grunn- og meistaraprófi í hagfræði frá Háskóla Íslands og síðar doktorsprófi frá Viðskiptaháskólanum í Stokkhólmi (Stockholm School of Economics).
Hann vann um árabil við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, var dósent við Háskólann á Bifröst og dósent við Háskólann í Reykjavík.
Jón Þór sat í bankaráði Seðlabanka Íslands um tveggja ára skeið, var aðstoðarmaður Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra og ráðgjafi utanríkisráðherra í efnahags- og ríkisfjármálum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. Hún er alþjóðahagfræðingur að mennt. Hún var aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands. Þá var hún ráðin tímabundið sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu, eða frá 2014 til 2015. Einnig starfaði hún hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington DC frá 2010 til 2013. Hún er með meistaragráðu frá Columbia University í alþjóðahagfræði og BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.
„Lilja er harðdugleg og afar metnaðarfull, en það er spurning hvort hún er með næga menntun í þetta starf,“ segir einn álitsgjafi. Annar segir starfsreynslu hennar vega upp á móti og hún njóti mikils trausts og sé „einhvern veginn alltaf með annað augað á Seðlabankanum.“
Rannveig Sigurðardóttir
Aðstoðarseðlabankastjóri og mikil innanbúðarmanneskja, sem er bæði kostur og galli. Hún hefur sterkan bakgrunn frá starfi fyrir ASÍ. Rannveig útskrifaðist sem hagfræðingur frá Gautaborgarháskóla í Svíþjóð árið 1990, en hún hefur unnið sem hagfræðingur hjá Seðlabankanum síðan árið 2002.
„Vitaskuld blasir við að starfandi aðstoðarseðlabankastjóri eigi hér mikla möguleika, en þau Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson eru ósátt við margt hjá bankanum á undanförnum árum og vilja líklega taka hressilega til.“
Dr. Sigríður Benediktsdóttir
Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Sigríður hefur af mörgum verið talin óskakandídat Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem ólm vill skipa fyrstu konuna í hið háa embætti. Nú þegar hneykslið varðandi dúndurhækkun launa bankastjóra Landsbankans hefur komist í hámæli verður erfitt að skipa Sigríði í embætti seðlabankastjóra. Hún situr í bankaráði bankans og ber því ábyrgð á hinni algjörlega dómgreindarlausu ákvörðun. Það verður lítil stemning fyrir að fá hana inn í bankann í kjölfar þessa máls.
Sigríður, sem lauk doktorsprófi við Yale-háskóla í Bandaríkjunum, starfar í dag við rannsóknir og kennslu við sama háskóla en þar áður stýrði hún fjármálastöðugleikasviði Seðlabankans 2011 til 2016. Sigríður var í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið árið 2008 og þá átti hún sæti í kerfisáhætturáði Danmerkur á árunum 2013 til 2016.
Dr. Sigurður Hannesson
Biskupssonurinn Sigurður kom víða við sögu í endurreisn íslensks efnahagslífs árin 2009-2015. Hann barðist gegn Icesave samningunum sem einn af stofnendum InDefence hópsins og kom eins og stormsveipur inn í íslenska þjóðfélagsumræðu sem helsti ráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra.
„Sigurður hefur sýnt að honum er treystandi fyrir vandasömum og krefjandi verkefnum. Hann er helsti arkitektinn að Leiðréttingunni þar sem hann leiddi sérfræðingahóp um málið haustið 2013. Þá lék hann lykilhlutverk þegar fjármagnshöftin voru losuð og var varaformaður framkvæmdahóps stjórnvalda árið 2015. Sú áætlun hefur skilað algjörum efnahagslegum viðsnúningi.“
Hann er með gott doktorspróf í stærðfræði frá Oxford háskóla. Hann þykir hafa staðið sig mjög vel sem framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og sýnt þar góða stjórnunarhæfileika.
Dr. Þórarinn G. Pétursson
„Sú staðreynd að hann sótti ekki um stöðu aðstoðarseðlabankastjóra á nýliðnu ári renndi stoðum undir kenningar þess efnis að hann hefði áhuga á að fylla skarð Más Guðmundssonar á þessu ári. Undir lok síðasta árs barst undarleg afsökunarbeiðni frá Þórarni vegna ummæla sem hann hafði látið falla átta vikum fyrr á fundi Félags atvinnurekenda, sem enginn sótti. Ummælin lutu að meintum þrýstingi stjórnvalda á ríkisbankana tvo að greiða út arð. Ljóst er að mikið hefur gengið á í samskiptum Seðlabankans og væntanlega fjármála- og eða forsætisráðuneytisins vegna málsins. Þessi uppákoma hefur ekki styrkt stöðu Þórarins í kapphlaupinu um stöðuna.“
Þórarinn lauk prófi í hagfræði (Cand. Oecon) frá Háskóla Íslands árið 1991, meistaraprófi í hagfræði frá Essexháskóla í Bretlandi árið 1992 og doktorsnámi (PhD.) frá háskólanum í Árósum í Danmörku árið 1998.
Öruggur innanbúðarmaður, en kannski ekki of líklegur þess vegna.