Varar við innistæðulausu höfrungahlaupi og leggur til norræna stéttasátt

Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur hefur verið skipaður nýr seðlabankastjóri.

Þann 2. janúar árið 1941, eða nákvæmlega fyrir 78 árum, boðuðu átta verkalýðsfélög verkfall. Þau voru Dagsbrún, Hið íslenzka Prentarafélag, Bókbindarafélagið, Iðja, Félag verksmiðjufólks, Félag járniðnaðarmanna, Bakarasveinafélagið, Sveinafélag húsgagnasmiða og síðast en ekki síst Félag ísIenzkra hljóðfæraleikara. 

Rót verkfallanna virðist hafa verið mikil verðbólga, eða dýrtíð, vegna vöruskorts er fylgdi heimsstyrjöldinni. Verkalýðsfélögin vildu þess vegna fá „dýrtíðaruppbót“. Þá virðist„Bretavinnan“ hafa komið vinnumarkaðinum í uppnám og skapað ný launaviðmið.

Þetta segir dr. Ásgeir Jónsson dósent í hagfræði og forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands, en í grein eftir hann í vetrarhefti Þjóðmála, færir hann rök fyrir því að verkfallið 2. janúar 1941 hafi verið upphaf hins sk. Höfrungahlaups. Það er hvernig mismunandi starfsgreinar hérlendis hafa skipst á um að berja fram „launaleiðréttingar“ án tillits til efnahagslegra aðstæðna. 

Innistæðulausar nafnlaunahækkanir

„Almennar nafnlaunahækkanir umfram framleiðni eru – eðli málsins samkvæmt – innistæðulausar og hljóta ávallt að leiða til verðbólgu. Vestrænar þjóðir telja sig lánsamar að ná 1-3% aukinni framleiðni á ári – og þá geta aukið kaupmátt almennings um sama hlutfall. En af einhverjum ástæðum vilja Íslendingar ávallt berja fram tugaprósenta launahækkanir – jafnvel þó slíkt hefni sín ávallt með gengisfalli og verðbólguskotum. Lokaniðurstaðan er samt sú sama – kaupmáttur vex með svipuðum hraða hérlendis og hjá frændþjóðum okkar þegar litið er til lengri tíma. 

Höfrungahlaupið á Íslandi er einstakt meðal vestrænna landa og er ein megin ástæða fyrir þeirri verðbólgu og óstöðugleika sem hefur einkennt lýðveldistímann. 

Lausnin sem ég legg til í greininni er eins konar stéttasátt að norrænni fyrirmynd – og er í líkingu við þjóðarsáttina á tíunda áratugnum. Staðreyndin er sú að stöðugleiki á vinnumarkaði er forsenda verðstöðugleika,“ segir Ásgeir Jónsson.

Greinin heitir „Um þjóðaríþrótt Íslendinga – höfrungahlaupið“ og er að finna hér.