Varla nokkur einasti fjármálaráðherra í Evrópu sem talar og hegðar sér með þessum hætti

Jóhann Páll Jóhannsson í umræðum um fjárlög á Alþingi. Við hlið hans er Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. / Hari.

„Hvað hefur gerst í sumar meðan við alþingismenn vorum í fríi? Vextir hafa haldið áfram að hækka, verðbólgan er ennþá miklu meiri en í löndunum í kringum okkur og tikkaði upp í síðustu mælingu, verðbólguvæntingar hafa nær ekkert þokast niður á við, ráðherrar tala um efnahagsmálin eins og áhorfendur en ekki stjórnendur, og sjálfur fjármálaráðherra, hæstvirtur fjármálaráðherra, hann er bara búinn að kúpla sig út úr glímunni við verðbólgu,“ var meðal þess sem Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í morgun við umræður um fjárlög, þar sem hann beindi mjög spjótum sínum að Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.

Jóhann Páll hefur vakið mikla athygli upp á síðkastið fyrir framgöngu sína og málflutning. Hann tók ráðherrann til bæna í morgun fyrir að segja það ekki í verkahring ríkisfjármálanna að berjast við verðbólguna, það væri lögbundið hlutverk Seðlabankans. Sagði Jóhann Páll að slíkt tal mætti túlka sem beiðni ríkisstjórnarinnar um frekari vaxtahækkanir.

„Ég er ekki viss um að það finnist nokkur einasta fjármálaráðherra í Evrópu sem talar og hegðar sér með þessum hætti. Og hver ber skaðann? Hver ber skaðann af þessu ábyrgðarleysi æðsta manns hagstjórnar í landinu? Jú, það eru heimilin og fyrirtækin, fólkið í landinu með hækkandi matarkörfu og hækkandi afborgunum af húsnæðislánum. Ríkisstjórnarflokkarnir hnakkrífast innbyrðis um hitt og þetta, en það sem þau eru alveg hjartanlega sammála um, það er þessi skaðlega efnahagsstefna, þetta ævintýralega skeytingarleysi gagnvart kjörum fólks,“ sagði þingmaðurinn.

Bætti hann við að þegar fjármálaráðherrann hreyki sér af afkomubata, að allt sé á fleygiferð og afkomubatinn sé meiri en áður var gert ráð fyrir, þá er hann í raun að hreykja sér af ofþöndu hagkerfi, monta sig af verðbólgufroðu. Seðlabankinn hafi bent á að afkomubati ríkissjóðs hafi orðið minni eftir faraldurinn en ætla hefði mátt út frá sögulegu sambandi efnahagsumsvifa og afkomu og fjármálaráð, óháður sérfræðingahópur um opinber fjármál, hafi orðað það sem svo að sýnd hafi verið lausung í fjármálastjórn.

Sakaði Jóhann Páll fjármálaráðherra að lokum um „ævintýralegan tvískinnung“ fyrir að hafa gagnrýnt aðhaldstillögur Samfylkingarinnar við fjármálaáætlun í vor upp á 17 milljarða og sagt þær svo litlar að umfangi, að varla tæki að tala um.

Vitnaði hann í ræðu Bjarna Benediktssonar á Alþingi 9. júní 2023, eins og Viljinn hefur áður rifjað upp, þegar hann sagði:

„Þeir sem koma með tillögur um að gera eitthvað minna en 25 milljarða eru ekki að leggja neitt markvert til í baráttunni gegn verðbólgu. Þeir sem ekki geta lagt fram tillögur hér á þinginu um að auka aðhaldið og draga úr hallanum sem nemur svona hálfu prósenti af landsframleiðslu eru eiginlega ekki marktækir í umræðunni.“

Þessi sami fjármálaráðherra komi nú örfáum seinna og haldi blaðamannafund til að kynna aðhaldsaðgerðir upp á nákvæmlega sömu fjárhæð. Og þegar formaður Samfylkingarinnar hafi gagnrýnt útfærslu á þeim aðgerðum hafi Bjarni brugðist reiður við og spurt hvort sautján milljarðar skiptu bara engu í stóra samhenginu. Að tala með þeim hætti um opinber fjármál væri óábyrgt.

„Hér er Bjarni Benediktsson búinn að snúa sér í ótrúlegustu hringi og í raun bæði búinn að dæma sjálfan sig ómarktækan í umræðu um ríkisfjármál og búinn að skamma sjálfan sig fyrir að tala með óábyrgum hætti um opinber fjármál. Svona geta nú hlutirnir verið kúnstugir,“ sagði Jóhann Páll ennfremur.