Við höfum öllu að tapa og ekkert að vinna ef við stöndum ekki saman

Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri SA. / SA.

„Mikilvægasta verkefnið framundan eru kjaraviðræðurnar, hætt er við því að þær verði bæði flóknar og erfiðar. Aðilar vinnumarkaðarins geta með óraunhæfum kjarasamningum haft mikil áhrif á hagstjórnina því launahækkanir sem ekki er innistæða fyrir enda sem verðbólgufóður. Ríkið getur jafnframt haft mikil áhrif á vinnumarkaðinn, rekstrargrundvöll bæði fyrirtækja og heimila með sínum ákvörðunum. Í baráttunni við verðbólgu og hátt vaxtastig má enginn skorast undan ábyrgð, hagsæld er í húfi,“ segir nýr framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Sigríður Margrét Oddsdóttir, í bréfi sem hún hefur sent þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samtökunum.

Sigríður Margrét bendir á að langstærsti einstaki kostnaðarliður fyrirtækja á Íslandi séu laun, en 60% af allri verðmætasköpun landsins fari í laun og launatengd gjöld. Þá sé húsnæðiskostnaður langstærsti einstaki kostnaðarliður heimila. Húsnæðismál séu því mikilvægt efnahagsmál en þak yfir höfuðið líka grunnþörf hvers einstaklings og hverrar fjölskyldu. Húsnæðisvandinn hafi þannig margþætt áhrif á samfélagið.

„Samtök atvinnulífsins eru aðili að um 120 kjarasamningum sem losna þann 1. febrúar næstkomandi, þar af um 50 almennum kjarasamningum og 70 sérkjarasamningum. Við höfum nú þegar hafið undirbúning vegna endurnýjunar kjarasamninga, vinnum að stefnumótun, gagnaöflun og skipulagi þess hvernig við getum best upplýst og unnið með ykkur að endurnýjun þeirra. Við þurfum að gefa okkur góðan tíma til þess að ræða grundvöll nýrra kjarasamninga og hvernig þeir geta stuðlað að aukinni hagsæld fyrir fólk, fyrirtæki og samfélagið allt.

Hagsæld hvorki sjálfgefin né sjálfsögð

Lífskjör á Íslandi mælast með því besta sem gerist, hvort sem við horfum til kaupmáttar launa eða hlutfalls verðmætasköpunar sem rennur til launafólks. Við búum í samfélagi þar sem tekjujöfnuður er mikill og við höfum um árabil verið í fyrsta sæti yfir jöfnuð kynjanna. Lífeyriskerfið okkar er í fyrsta sæti í alþjóðlegum samanburði og hefur sannað mikilvægi sitt.

Hagsæld er hvorki sjálfgefin né sjálfsögð, verkefnin okkar á komandi vetri endurspegla það. Við höfum öllu að tapa og ekkert að vinna ef við stöndum ekki saman,“ segir hún ennfremur.