„Íslenskt raforkukerfi er komið að þolmörkum og má segja að kerfið sé fulllestað, enda hefur mjög takmarkað verið virkjað hér á landi á síðastliðnum áratug eða svo. Þá hafa hindranir í flutningskerfi raforku einnig áhrif en þetta tvennt leiðir til þess að við stefnum að óbreyttu inn í raforkuskort. Það skýtur skökku við í samhengi við loftslagsmarkmið og þá sérstaklega markmið um full orkuskipti á Íslandi,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins í viðtali sem birt er í nýjasta tölublaði Sóknarfæra.
Umræðan verið í skotgröfum í langan tíma
Sigríður segir í viðtalinu að raforkukerfið á Íslandi hafi á síðustu árum ekki einu sinni vaxið nægjanlega til að halda í við fólksfjölgun og almenna þróun samfélagsins. Umræða um orkumál og orkuöflun hafi verið í skotgröfum í langan tíma og mál að linni. „Helsta ástæða kyrrstöðu í orkumálum er pólitísk andstaða, en hávær hópur fólks hefur haldið frekari orkuöflun hér á landi í gíslingu um langt árabil. Þá hefur mótstöðu við orkuöflun orðið vart hjá ríkisstofnunum og einnig sumum sveitarfélögum. Sveitarfélögin eru oft á tíðum sett í erfiða stöðu. Þegar kemur að stórum og mikilvægum þjóðhagslegum framfaramálum þyrfti ríkið að bera meiri ábyrgð, lítil sveitarfélög ráða einfaldlega ekki við verkefnið. Þá hafa ríkisstofnanir sem sinna þessum málaflokki brugðist sínu hlutverki, það hefur ekki verið til staðar nein sýn um orkuþörf Íslands til framtíðar. Þetta hefur meðal annars leitt af sér ákveðinn misskilning um að ekkert þurfi að virkja fyrir orkuskipti, sem er auðvitað fjarri sannleikanum. Þegar fólk áttar sig á að aðgangur að grænni orku er forsenda nútímasamfélags, árangurs í loftslagsmálum, verðmætasköpunar og aukinna útflutningstekna, þá blasir þetta öðru vísi við. Náttúruvernd felst einnig í að draga úr mengun en það gerum við með því að skipta út olíu fyrir græna orku. Nýlegar skoðanakannanir sýna raunar að mikill meirihluti þjóðarinnar er hlynntur því að hér verði aflað meiri grænnar orku enda áttar fólk sig á að það sé nauðsynlegt til að tryggja full orkuskipti og efla um leið orkusjálfstæði Íslands.“
Lokun stóriðju þýddi lakari lífskjör
Vinstri græn sögðu í ályktun á flokksráðsfundi nýverið, að skynsamlegra sé að hætta raforkusölu í rafmyntagröf og segja upp stóriðjusamningum í stað þess að hefja nýjar virkjunarframkvæmdir.
Sigríður segir slíkt ekki raunhæft:
„Ef við horfum raunsætt á þessa stóru mynd þá liggur fyrir að Ísland er ekki að fullu sjálfstætt né sjálfbært í orkumálum. Ef húshitun er undanskilin annar raforkan einungis um helmingi af orkuþörf landsins. Innflutningur á olíu annar hinum helmingnum. Þessi staða er í andstöðu við þá grænu ímynd sem við viljum státa okkur af. Að snúa við þessu tafli með patentlausnum á borð við þá að loka einu álveri eða svo tel ég bæði óraunhæft og óskynsamlegt enda lokar enginn álveri nema eigandinn. Stóriðjan er ein helsta og mikilvægasta stoð útflutnings Íslands og skilar gríðarlegum verðmætum inn í íslenskt þjóðarbú. Lokun stóriðju hefði því mikil og neikvæð áhrif á lífskjör hér á landi. Loks minni ég á að ál, framleitt á Íslandi, er grænna og umhverfisvænna en ál sem framleitt er annars staðar í heiminum.
Þá segir Sigríður í viðtali Sóknarfæra hvað gagnaverin varði þá noti þau um 5% af þeirri raforku sem framleidd sé og skili um 20 milljörðum í útflutningstekjur. „Þá skulum við muna að gagnaver eru grunnstoð í upplýsingatæknivæddum heimi og margar af þeim þjóðum sem við viljum helst bera okkur saman við leggja mikið kapp á að efla og stækka þann iðnað. Gagnaverin á Íslandi vinna öll að því að fasa út rafmyntagröft fyrir verðmætari tegund viðskiptavina, meðal annars tengt vexti gervigreindar og ofurtölva. Það skiptir miklu máli fyrir framtíðarhagsmuni Íslands að tryggja að við séum samkeppnishæf í upplýsingatækni og gagnaiðnaði.“
Tómt mál að tala um orkuskipti
Jafnframt segir Sigríður í viðtalinu að Samtök iðnaðarins hafi verið að vekja athygli á þeirri einföldu staðreynd að raforka á Íslandi er því sem næst uppseld. „Án frekari virkjana blasir við alvarlegur orkuskortur á næstu árum auk þess sem orkuskiptin verða tómt mál að tala um. Veruleikinn er sá að við erum að auka innflutning á jarðefnaeldsneyti ár frá ári þótt stjórnvöld hafi sett sér það markmið að Ísland verði hætt innflutningi á olíu og bensíni árið 2040 eða eftir 17 ár. Því miður eru stjórnvöld ekki að bregðast við þessari stöðu með nægilega markvissum hætti. Einfalda þarf og samræma ferli leyfisveitinga í stjórnkerfinu eins og aðrar þjóðir hafa gert til að liðka fyrir grænni orkuöflun. Sagan mun dæma það sem góða ákvörðun. Réttar ákvarðanir eru ekki alltaf vinsælar en fyrri orkuskipti á Íslandi hafa reynst okkur gríðarlega vel, það er óumdeilt í dag. Þau orkuskipti sem nú eru framundan, og krefjast aukinnar framleiðslu á grænni orku, munu einnig reynast Íslandi vel til framtíðar, bæði með tilliti til loftslagsmála og þróunar samfélagsins í heild.“