Viðskiptavinir sneru við henni bakinu eftir umfjöllun Kastljóssins

Elín Björg Ragnarsdóttir lögmaður.

„Ég starfaði sem fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fisk­fram­leiðenda og út­flytj­enda fram­an af ári 2012. Þá í janú­ar fór Helgi Selj­an, einn um­sjón­ar­manna Kast­ljóss, fram á viðtal við mig þar sem hann væri að vinna Kast­ljósþátt um sam­keppn­is­lega mis­mun­un í inn­lendri fisk­vinnslu og nauðsyn aðskilnaðar veiða og vinnslu. Ég tók vel í er­indi hans og tók hann um 40 mín­útna langt viðtal við mig um mál­efnið. Var viðtalið tekið upp í RÚV við Efsta­leiti. Þegar leið á viðtalið fjallaði ég einnig lít­il­lega um mögu­leika fyr­ir­tækja sem hefðu alla virðiskeðjuna á eig­in hendi til að taka arð af auðlind­inni út í er­lendu fyr­ir­tæki. Tók ég skýrt fram að slíkt fyr­ir­komu­lag væri lög­legt og ef menn vildu breyta þess­um leik­regl­um yrði að breyta lög­gjöf­inni. Ég gagn­rýndi því lög­gjöf­ina en ekki eitt ein­asta fyr­ir­tæki sem nýtti sér þessa glufu, þrátt fyr­ir að Helgi Selj­an hefði ít­rekað reynt að fá mig til að nefna eitt eða fleiri af stóru út­gerðarfyr­ir­tækj­un­um. Í lok viðtals­ins seg­ir Helgi að þessi þátt­ur verði sýnd­ur í næstu eða þar næstu viku. Hvorki heyrði ég meira frá Helga né öðrum hjá RÚV og ekki var þátt­ur­inn sýnd­ur og hef­ur aldrei verið sýnd­ur. Ég taldi því full­víst að hætt hefði verið við þátt­inn.“

Þannig hefst aðsend grein eftir lögmanninn Elínu Björgu Ragnarsdóttur, fv. framkvæmdastjóra Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, í Morgunblaðinu í dag. Hún lýsir þar reynslu sinni af vinnubrögðum fréttamanna Kastljóssins, upplýsir um kæru á hendur þeim til siðanefndar Ríkisútvarpsins, krefst síðbúinnar leiðréttingar og að viðkomandi fái refsingu.

„Að kvöldi 27. mars 2012, um tveim­ur mánuðum síðar, sett­ist ég fyr­ir fram­an sjón­varpið, líkt og fleiri lands­menn, til að fylgj­ast með sér­stök­um Kast­ljósþætti þar sem fjalla átti um Sam­herja og hús­leit hjá fyr­ir­tæk­inu. Mér brá veru­lega þegar ég horfði allt í einu á sjálfa mig á sjón­varps­skján­um. Valið brot úr þessu viðtali við mig hafði verið klippt inn í um­fjöll­un­ina og var þetta brot einnig sýnt í sjón­varps­frétt­um kl. 22 sama kvöld. Í þessu viðtals­broti er ég að lýsa því hvernig hægt væri að taka út arðinn af auðlind­inni er­lend­is en búið að klippa út þar sem ég lýsi því að þetta sé í sam­ræmi við lög og leik­regl­ur sem sett­ar eru af lög­gjaf­an­um. Í inn­gangi og í því sem á eft­ir fór er hins veg­ar ómögu­legt annað en að draga þá álykt­un að ég hafi verið að lýsa meintu ólög­legu at­hæfi Sam­herja.

Helgi Seljan fréttamaður.

Ég var mjög sleg­in yfir þess­um vinnu­brögðum RÚV og tel það skýrt brot á siðaregl­um. Sendi ég því tölvu­póst til Páls Magnús­son­ar, frétta­stofu RÚV og Kast­ljós dag­inn eft­ir, 28. mars, þar sem ég lýsti óánægju minni með mis­notk­un á viðtal­inu og skrifaði m.a.:

„Í viðtal­inu var á eng­an hátt rætt um sjó­fryst­ingu eða viðskipti með þær afurðir eins og látið var líta út fyr­ir í um­fjöll­un RÚV. Að klippa út val­inn hluta úr viðtal­inu þannig að liti út fyr­ir að ég væri að saka fyr­ir­tæki um ólög­lega hluti finnst mér ámæl­is­verð vinnu­brögð og RÚV til vansa.“

Eng­inn af þess­um aðilum sá ástæðu til að svara tölvu­pósti mín­um. Aðrar leiðir til að reyna fá leiðrétt­ingu voru einnig án ár­ang­urs. Eng­inn áhugi var fyr­ir því hjá RÚV að ræða þá staðreynd að trúnaður gagn­vart mér sem viðmæl­anda var gróf­lega brot­inn hvað þá að koma fram með af­sök­un eða leiðrétt­ingu,“ segir Elín.

Sögð upphafsmaður Samherjamálsins

„Í mars 2012, þegar þessi Kast­ljósþátt­ur fór í loftið, hafði ég hætt mínu fyrra starfi og hafið störf sem lög­fræðing­ur þar sem ég ætlaði mér að nýta þekk­ingu mína úr sjáv­ar­út­vegi og sér­hæfa mig í lög­fræðiaðstoð við út­gerðir og vinnsl­ur. Þessi um­fjöll­un hafði því alls ekki góð áhrif á mitt líf og lífsviður­væri. Ég átti því mikið und­ir því að fá þessa um­fjöll­un leiðrétta. Þarna mis­notaði Kast­jós gróf­lega viðtal við mig, fleygði mér inn í harka­lega sam­fé­lagsum­ræðu án þess að ég hefði hug­mynd um það fyrr en skaðinn var skeður. Þurfti ég að auki að sæta því næstu vik­ur og mánuði að heyra glós­ur um að ég hefði bein­lín­is verið upp­hafsmaður að mál­inu með því að koma á fram­færi upp­lýs­ing­um sem leiddu til rann­sókn­ar á Sam­herja o.fl.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Ég hafði ýms­um öðrum hnöpp­um að hneppa en að standa í stappi við yf­ir­menn RÚV sem sýndu er­indi mínu full­komið tóm­læti. Ég þurfti að kom­ast af þar sem viðskipta­vin­ir snéru við mér baki og finna mér önn­ur verk­efni. Ég treysti því að með tím­an­um myndi fenna yfir þetta mál og það gleym­ast. Það er þó ljóst að svo verður seint og lík­lega verður þetta mál eitt að þeim sem verða skrifuð á spjöld sög­unn­ar,“ segir Elín ennfremur í greininni.

Starfs- og siðareglur þverbrotnar

„Á vef RÚV eru birt­ar regl­ur um frétt­ir og frétta­tengt efni og siðaregl­ur sömu­leiðis. Það er áhuga­verður lest­ur í ljósi reynslu minn­ar af sam­skipt­um við Kast­ljós/​RÚV. Aug­ljóst er að nú­gild­andi starfs- og siðaregl­ur voru þver­brotn­ar og gild­andi starfs­regl­ur á þeim tíma sömu­leiðis þótt eng­um á RÚV þætti efni standa til að svara bréf­inu mínu, hvað þá að iðrast gjörða sinna og biðjast af­sök­un­ar.

Nú þegar umræðan um þetta mál kem­ur aft­ur upp á yf­ir­borðið og ít­rekað er bent á óeðli­lega aðkomu Kast­ljóss að því máli þá hef­ur umræðan um aðkomu mína að því enn vaknað. Af þeim ástæðum hef ég nú vísað þessu máli til siðanefnd­ar RÚV þar sem ég óska eft­ir síðbú­inni leiðrétt­ingu og að þeir sem að þess­ari mis­notk­un stóðu, og þver­brutu starfs- og siðaregl­ur, hljóti viðeig­andi refs­ingu og biðjist op­in­ber­lega af­sök­un­ar.

Tjón mitt vegna þess­ar­ar umræðu er mikið. Svona á „RÚV okk­ar allra“ ekki að vinna! Rík­is­rek­inn fjöl­miðill get­ur ekki stundað vinnu­brögð af þessu tagi. En kannski eru siðaregl­ur og aðrar regl­ur um starf­semi RÚV bara fög­ur orð og fyr­ir­heit á blaði,“ segir Elín Björg ennfremur í grein sinni.