Flokksráðfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, leggur áherslu á að stjórnvöld setji skýran lagaramma svo raforka sé ávallt tryggð til heimila.
„Sáralítill hluti raforkuframleiðslu rennur til heimila á Íslandi. Langmestur hluti hennar fer til stórnotenda, einkum þungaiðnaðar: álvera, kísilvera og járnblendis, en einnig í gagnaver og fiskeldi.
Flokksráðfundurinn leggur áherslu á, með vísan í stefnu flokksins um orkumál, að öllum landsmönnum verði tryggt gott aðgengi að raforku, stuðlað verði að betri nýtingu orkunnar og orkutap minnkað. Orkusóun, líkt og í rafmyntargröft eða annað sem ekki nýtist til græns sjálfbærs samfélags, þarf að stöðva og stjórnvöld verða að meta orkuþörf landsins til framtíðar áður ráðist er í frekari virkjanaframkvæmdir með tilheyrandi og meiriháttar óafturkræfum skemmdum á einstakri náttúru landsins,“ segir í ályktun flokksins.
Þá leggur flokksráðsfundurinn til að við lok samningstíma orkusölusamninga til stórnotenda sem hér hafa verið nefndir verði kannaðir kostir þess að samningarnir verði ekki endurnýjaðir og að sú orka sem þá losnar verði fremur nýtt til heimila og orkuskipta.
Þetta er beinni mótsögn við ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis- og auðlindaráðherra um mikilvægi þess að hraða uppbyggingu nýrra virkjana til að liðka fyrir orkuskiptum og tryggja samkeppnishæfni landsins.