Vill skoða að innheimta gistináttagjald af bílaleigum

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, hefur beint fyrirspurn til ráðherra ferðamála á þingi, þar sem spurt er hvort til greina komi að innheimta gistináttagjald af gistingu í húsbílum og svonefndum „campers“ af bílaleigum.

Fyrirspurn Ólafs Þórs til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um gistinætur í hús- og ferðaþjónustubifreiðum, hljóðar svo:

1. Hefur ráðherra upplýsingar um fjölda gistinátta í bifreiðum á vegum bílaleiga, þ.m.t. húsbílum og svokölluðum „campers“?

2. Hefur ráðherra upplýsingar um í hvaða mæli gistináttagjald vegna slíkra bifreiða skilar sér í ríkissjóð af tjaldsvæðum og frá ferðaþjónustuaðilum?

3. Telur ráðherra koma til greina að innheimta gistináttagjald vegna slíkrar gistingar af bílaleigum fremur en gististöðum og stuðla þannig að því að leigutakar velji að gista á skipulögðum ferðamannastöðum þó að í bílum sínum sé?