„Þær 1200 fjölskyldur sem nú eru á vergangi hafa eðlilega margvíslegar spurningar og áhyggjur,“ segir Vilhjálmur Árnason þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, en hann er úr Grindavík og hefur eins og aðrir bæjarbúar þurft að yfirgefa heimili sitt og koma sér fyrir á nýjum stað tímabundið.
Viljinn spjallaði við Vilhjálm í upphafi helgar til að fá innsýn í stöðu Grindvíkinga á fordæmalausum tímum og heyra hugmyndir bæjarbúa um mögulegar lausnir í bráð og lengd í ljósi aðsteðjandi hættu á eldgosi og frekari hamförum og þeirri stöðu sem þegar blasir við eftir jarðhræringar síðustu daga.
„Það er erfitt að útskýra líðan Grindvíkinga við þessar aðstæður,“ segir Vilhjálmur. „Mikið af áhyggjunum og þeirri reiði sem ég finn að sé að byrja er út af upplýsingaleysi. Það virðist enginn vita hvaða vinna sé í gangi í þessu öllu saman. Ég hef haft það á tilfinningunni allan tímann að mikil vinna sé í gangi og margt í undirbúningi og trúi því, en ég hef bara ekki séð neinar upplýsingar um hvert sú vinna er að þróast, hvers sé að vænta eða hvenær vænta megi niðurstöðu. Þess vegna þarf til dæmis að halda upplýsingafundi,“ segir hann og fagnar því að upplýsingafundur verði haldinn eftir hádegi í dag, þar sem meðal annars Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, munu vera til svara.
Vilhjálmur nefnir nokkur dæmi um aðstæður fólks:
- Margir eru í sumarbústöðum, bæði með börn og ekki. (þar er enginn snjómokstur þegar snjóa fer sem eitt dæmi)
- Fólk er mest á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjanesbæ og svo á Suðurlandi. Svo einstaka fjölskyldur á Akranesi og hringinn í kringum landið.
- Fólk hefur fengið inni á hótelherbergjum, sumarhúsum, inni á öðrum fjölskyldum og kannski 5 manna fjölskyldur í stúdíóíbúðum eða litlum tveggja herbergja íbúðum. Nú undanfarið hafa einstaka fjölskyldur fengið leigðar íbúðir AIRBNB íbúðir og íbúðir hjá fólki sem eru erlendis í lengri tíma. Ég er í einni slíkri og við fáum að vera hér til 27. desember. En það er mjög algengt að fólk þurfi að fara út um jól eða áramót og verður þá aftur komið á götuna. Margir eru búnir að fá íbúðir til afnota endurgjaldslaust eða á lámarks verði sem voru á milli leiguaðila eða á leiðinni á sölu, þá gildir sú góðmennska oft bara til áramóta. Eitthvað er að byrja leiga á stéttarfélagsíbúðum og svo byrjaði í í fyrradag holskefla af fólki að auglýsa eftir íbúðum til leigu á Facebook.
- Ég tel stöðuna því vera þannig að fólk vill fara komast út úr bráðabirgðahúsnæðinu og hætta vera upp á aðra komin eða inni á heimili þeirra og í eitthvað varanlegra. Aðrir sem eru í komnir í skjól eru bara í því fram að jólum.
- Á sama tíma er orðið ljóst að þetta ástand mun vara fram á vor að lámarki, sérstaklega hjá barnafjölskyldum. Samt eru óþægilega margir enn sem trúa því að þetta sé bara tímabundið og halda að þau flytji bara inn aftur eftir eina tvær vikur. Ég skrifa það á skort á upplýsingum, yfirlýsingum eða ákvörðunum.
Vilhjálmur hefur rætt við fjölmarga bæjarbúa undanfarna daga og tekur saman þær spurningar sem helst brenna á Grindvíkingum nú:
- Hvað eru stjórnvöld að gera varðandi 1200 heimilislausar fjölskyldur?
- Munu bankarnir bjóða upp á einhverjar lausnir aðrar en að framlengja lánið sem var líka í boði fyrir jarðhræringar og þannig éta eigið fé enn meira upp ofan á verðfall íbúðanna. Mikil reiði er að byggjast upp gagnvart bönkunum.
- Erum við að fara að greiða af húsnæðisláni og annan rekstrarkostnað af húsnæðinu í Grindavík á sama tíma og við erum kominn inn á erfiðan leigumarkað með svimandi háum verðum? Margir náðu ekki orðið endum saman áður en þau voru hrakin út af heimili sínu.
- Um leið og fólk fær ekki að að vera heima hjá sér og stór hópur er áhyggjufullur með afkomuna þá eykst rekstrarkostnaður heimilis gríðarlega. Hærri húsnæðiskostnaður og ekkert til fyrir daglegt heimilishald; kryddin eru ekki til í skúffunum einu sinni.
- Hvenær mun Náttúruhamfaratrygging byrja að greiða út þar sem er nú þegar orðið altjón? Viðkomandi getur ekki flutt heim aftur þó allt hætti á eftir.
- Ef húsin eru ekki skemmd en allir innviðir í kring eru bilaðir, fólk treystir sér ekki heim aftur í ótta við að næsta skjálftahrina byrjar og húsið orðið verðlaust og enginn kaupandi? – Munu stjórnvöld koma til móts við slíkar aðstæður og þá á hvaða stigi máls?
- Það eru fáar íbúðir lausar til leigu en enn fleiri til sölu, mikið af nýjum íbúðum sem verktakar verða að selja til að losa pening og vilja því ekki leigja. Verktakar hafa verið að lækka þær íbúðir niður í hlutdeildarlánaverð. Kæmi til skoðunar að hjálpa fólki í gegnum einhverskonar hlutdeildarlán að kaupa íbúðir. fá þá öruggt skjól, byrja að safna smá höfuðstól í fasteign aftur og þá losnar fjármagn fyrir verktakanna að byrja á nýjum og nauðsynlegum nýframkvæmdum á húsnæði. Svo gæti fólk selt eignirnar aftur þegar þau gætu flutt aftur til Grindavíkur og greitt ríkinu til baka + aukið verðgildi hússins í sama hlutfalli og hlutdeildarlánið og byrjað að greiða af Grindavíkurhúsnæðinu aftur.
- Er eitthvað sem Seðlabankinn getur gert til að hjálpa bönkunum að koma til móts við íbúa Grindavíkur? Hvernig getum við þrýst meira á bankana?. Þess skal getið að í Grindavík eru ein hæstu meðallaun á Suðurnesjum, örfá hús lentu í höndum bankanna í hruninu. Því hafa Grindvíkingar verið góðir kúnnar og ef þeim er hjálpað núna eru meiri líkur á að fólkið komi að meiri krafti til baka og verji þannig veðið sem bankarnir hafa fyrir lánunum. En annars gæti verið hætt á því að bærinn nái sér síður til baka, fólk fjárvana eftir háa leigugreiðslur í borginni og geti ekki viðhaldið húsunum og veðin því orðið verðlaus.
- Ef húsnæðisöryggi verður tryggt sem fyrst þá mun það draga verulega úr mesta tjóninu sem getur orðið – ANDLEGU heilsunni.
Vilhjálmur segir að staðan sé grafalvarleg og aðgerða sé þörf strax. „Ég held að það sé nokkuð ljóst að við reddum ekki um 1000 íbúðum á næstu tveimur mánuðum. Nú er fólk allt sjálft að pæla í þessu og leita lausna. Með því að senda þeim einhverjar bjargir núna fljótt, eins og ég hef nefnt hér að ofan eru líkur á að þau leysi stóran þátt vandans, með því að finna sér leiguhúsnæði eða fjárfesta í öðru húsnæði. Þá verður verkefni stjórnvalda auðveldara og dregur úr þörfinni fyrir viðlagasjóðshús sem tekur nokkra mánuði að koma upp og yrði mikil óþreyja á meðan. Þó ég sé á því að það þurfi að byrja slíkan undirbúning strax og taka ákvarðanir, þó þær nýtist ekki allar, þá er húsnæðisskortur í landinu. Þá er líka erfitt að skipuleggja skóla- og íþróttastarf á meðan búsetan er að breytast svona mikið viku fyrir viku.
Enn og aftur, þá heyri ég að þráðurinn sé að styttast, lítið hefur komið fram af upplýsingum um lausnir í húsnæðismálum nema að það sé einhver starfshópur að störfum og bankarnir eru að halda að sér höndum.“
Þingmaðurinn fagnar því að félags- og vinnumarkaðsráðherra hafi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar lagt fram frumvarp sem tryggir Grindvíkingum afkomu fram í febrúar, amk. „Ég vara þó við því, sem ég hef aðeins heyrt, að það sé eina stóra lausnin sem fólk sé mest að bíða eftir, alls ekki. Þá hafa fyrirtækin líka miklar áhyggjur, sérstaklega einyrkjarnir og litlu fjölskyldufyrirtækin sem eru í rekstrarstoppi,“ bætir hann við.